Íslenski boltinn

Hall­dór fram­lengir til ársins 2028 við Breiða­blik

Aron Guðmundsson skrifar
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. EPA/Jakub Kaczmarczyk

Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks í fótbolta, hefur framlengt samning sinn við félagið til ársins 2028. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Breiðabliki núna í morgun. Undir stjórn Halldórs varð liðið Íslandsmeistari árið 2024, á sínu fyrsta tímabili undir hans stjórn. 

„Það er mikil ánægja og gleði með störf hans og þann metnað sem Halldór hefur fyrir meistaraflokki karla og félaginu í heild sinni. Að tryggja áframhaldandi störf hans hjá Breiðabliki er mikilvægur hluti af áframhaldandi framgangi og uppbyggingu Knattspyrnudeildar Breiðabliks,“ segir í tilkynningu Breiðabliks. 

Halldór þakkar fyrir traustið sem að honum er sýnt. 

„Í Breiðabliki er mikill metnaður til að ná góðum árangri sérhvert ár en um leið er liðið byggt upp og mannað að stórum hluta á uppöldum leikmönnum. Þessi blanda gerir verkefnið ótrúlega spennandi og ég er þakklátur fyrir traustið sem Breiðablik sýnir mér með þessari framlengingu. Félagið hefur byggt upp einstakan og metnaðarfullan kúltur og ég hlakka til að halda áfram á þeirri braut á næstu árum.“

Sem fyrr mun Halldór standa í boðvanginum á Kópavogsvelli í kvöld þegar að Breiðablik tekur á móti Zrinjski Mostar í seinni leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar. Einvígið stendur jafnt, 1-1, eftir fyrri leik liðanna. 

Með sigri í einvíginu mun Breiðablik tryggja sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar hið minnsta. Með sigri fer liðið einnig í umspil við franska liðið Strasbourg um sæti í deildarkeppni Evrópudeildarinnar. 

Leikur Breiðabliks og Zrinjski Mostar hefst klukkan hálf sex í dag og verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×