Innlent

Hlaupið aftur í rénun eftir vöxt í nótt

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
536272883_1270389068450418_2133815340498429230_n

Vatnshæð í Hvítá hefur lækkað nokkuð eftir töluverða hækkun vegna jökulhlaupsins í nótt. Hlaupið úr Hafrafellslóni hófst á föstudag og Veðurstofan fylgist grannt með þróuninni. 

Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur segir þó ekki tímabært að segja til um hvort hlaupinu sé að ljúka þrátt fyrir lækkun í dag. Hún hvetur fólk áfram til að sýna aðgát í grennd við ána og fylgist með stöðunni á svæðinu.

„Það er búið að vera að lækka núna í dag eftir töluverða hækkun í nótt, það komu þarna tveir greinilegir toppar í nótt eða um miðnætti í gærkvöldu og svo um klukkan fjögur í nótt. En það hefur alveg dregið úr rennslinu síðan þá,“ segir Elísabet. 

Hæst fór það í rúmlega 400 cm hæð í nótt á mæli í Hvítá ofan Húsafells en hefur síðan dottið aftur niður undir 300 cm og hefur þannig lækkað nokkuð skarpt í dag að sögn Elísabetar.

„En þetta er ekki kannski þessi týpíska hegðun á jökulhlaupi að fá þessa tvo afgerandi toppa, þannig við þurfum aðeins að fylgjast með þróuninni í dag og sjá hvernig þetta fer áður en við lýsum einhverju yfir um að toppi hafi verið náð. Við ætlum að sjá aðeins til hvernig þetta þróast í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×