Innlent

Staðan ekki al­var­leg í Hauka­dals­á

Rafn Ágúst Ragnarsson og Smári Jökull Jónsson skrifa
Hrönn Jörundsdóttir er forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn Jörundsdóttir er forstjóri Matvælastofnunar. Vísir/Einar

Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, segir fjölda eldislaxa í Haukadalsá undir þeim mörkum sem teljast alvarleg. Fjögur prósent veiddra laxa í tiltekinni á þurfa að vera eldislaxar til að hættuástand skapist vegna erfðablöndunar.

Greiningu er lokið á 11 löxum af þeim 19 sem veiddir voru í Haukadalsá og af þessum ellefu löxum er staðfest að þrír þeirra eru eldislaxar. Það á eftir að ljúka greiningu á átta löxum og þá barst tilkynning um tvo laxa um helgina frá þessu sama svæði. Í tilkynningu sem barst í dag var tekið fram að staðan væri ekki metin alvarleg þar sem svona fáir eldislaxar hafi veiðst.

Upplýsingaóreiðu hefur gætt í umfjöllun um mengun stofnsins í Haukadalsá en fyrst var greint frá því að mögulega væru mörghundruð eldislaxar í ánni. Voru vinnubrögðin ekki nógu góð?

„Rannsóknin hefur verið góð og ég held að vinnubrögðin í sjálfri rannsókninni séu góð en hins vegar er mikilvægt að réttar upplýsingar komist til almennings í gegnum fjölmiðla. Því komum við fram með þessa fréttatilkynningu núna til þess að tryggja að umræðan sé byggð á réttum gögnum,“ segir Hrönn.

Niðurstöður skoðanakönnunar á vegum Maskínu sýndu að rúmur helmingur landsmanna hafi miklar áhyggjur af því að íslenski laxastofninn sé í hættu. Alls 56 prósent svarenda svöruðu á þá leið.

„Að sjálfsögðu er ekki gott að finna eldislaxa í íslenskri náttúru og þeir eiga ekki að vera þar. Það er áhættumat erfðablöndunar sem metur það hvort staðan sé orðin alvarleg. Hún er það ekki í þessu tilfelli. Það þarf að fara yfir 4 prósent fiska í ánni til þess að komist upp ákveðið hættuástand,“ segir Hrönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×