Fótbolti

Bröndby setur fimm í bann vegna slags­mála á Ís­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá stuðningsmenn Bröndby fylgjast með leiknum í Víkinni. 
Hér má sjá stuðningsmenn Bröndby fylgjast með leiknum í Víkinni.  Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Danska fótboltafélagið Bröndby hefur tekið hart á framkomu stuðningsmanna sinna eftir tapið í Víkinni fyrir nokkrum vikum.

Bröndby steinlá óvænt 3-0 í fyrri leiknum við Víkingi í Sambandsdeildinni og það fauk í framhaldinu vel í fjölmarga ósátta stuðningsmenn liðsins sem höfðu lagt á sig ferð alla leið til Íslands.

Þeir slógust við stuðningsmenn Víkings á tveimur stöðum og frömdu skemmdarverk í Víkinni.

Bröndby fór yfir málið og skoðaði upptökur af slagsmálunum í Víkinni og fyrir utan Ölver.

Niðurstaðan var að setja fimm einstaklinga í bann.

Bröndby fékk 3,6 milljón króna sekt frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA. Danska félagið þarf líka að borga fyrir skemmdarverk á ferðakamar í Víkinni.

Ole Palmå, framkvæmdastjóri Bröndby, staðfesti bannið við bold.dk.

„Á þeim tíma sem er liðinn þá höfum við fengið allt myndefni í boði og út frá því höfðum við ákveðið að setja fimm einstaklinga í bann. Þetta eru þeir brotlegu sem við gátum nafngreint á myndböndunum,“ sagði Ole Palmå.

Bröndby vann seinni leikinn 4-0 í Kaupmannahöfn og komst áfram í næstu umferð. Liðið mætir þar franska félaginu Strasbourg og staðan í einvíginu er 0-0 eftir fyrri leikinn í Frakklandi. Bröndby myndi næla sér í væna peningaupphæð frá UEFA vinni liðið seinni leikinn á heimavelli sínum.


Tengdar fréttir

Fengu milljóna sekt eftir ólætin á Íslandi

Knattspyrnusamband Evrópu hefur nú sektað danska félagið Bröndby um jafnvirði tæplega 3,6 milljóna króna vegna ólíðandi framkomu hluta af stuðningsmannahópi liðsins á Íslandi á dögunum.

Fókus á bolta ekki bullur: „Á ekki að sjást í kringum fót­bolta­leiki“

Sölvi Geir Otte­sen, þjálfari Víkings Reykja­víkur segir sína menn ekki geta fallið til baka og múrað fyrir mark sitt í mikilvægum seinni leik gegn danska stór­liðinu Brönd­by í undan­keppni Sam­bands­deildarinnar í fót­bolta í kvöld. Hann á allt eins von á því að það verði baulað á sig sökum fortíðar hans í Kaup­manna­höfn.

Átökin „hvorki vegna né þrátt fyrir“ áfengissöluna

Áfengi var til sölu á leik Víkings og Bröndby í gær. Framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings segir leyfisumsókn um áfengissölu á viðburðum félagsins enn í vinnslu. Átökin sem brutust út á leiknum ekki tengjast áfengissölunni á neinn hátt. 

Hvolfdu kamri, skölluðu Víking og voru piparúðaðir út

Stuðningsmenn danska liðsins Bröndby létu öllum illum látum í 3-0 tapi liðsins gegn Víkingi á heimavelli hamingjunnar í gærkvöldi. Ferðaklósett fékk að finna fyrir því og sakleysislegur stuðningsmaður Víkings var skallaður. Lögreglan beitti piparúða til að bægja þeim burt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×