Fótbolti

Sendi Albert inn á í hálf­leik þegar út­litið var orðið svart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson og félagar tryggðu sig inn í Sambandsdeildina í kvöld.
Albert Guðmundsson og félagar tryggðu sig inn í Sambandsdeildina í kvöld. EPA/CLAUDIO GIOVANNINI

Albert Guðmundsson og félagar í ítalska félaginu Fiorentina verða með í aðalhluta Sambandsdeildarinnar en þeir máttu passa sig á heimavelli á móti úkraínska félaginu Polissya Zhytomyr í kvöld.

Fiorentina vann 3-2 endurkomusigur í kvöld eftir að hafa grafið sér holu í upphafi leiks.

Fiorentina vann fyrri leikinn 3-0 á útivelli og var því í frábærum málum.

Þjálfari leyfði sér meðal annars það að byrja með Albert Guðmundsson á bekknum.

Úkraínska liðið var aftur á móti ekki búið að gefast upp og var komið í 2-0 eftir aðeins fjórtán mínútna leik.

Oleksandr Nazarenko skoraði fyrra markið á 2. mínútu og nafni hans Oleksandr Andrievsky það síðara á 14. mínútu.

Albert kom inn á í hálfleik ásamt Robin Gosens sem annar lykilmaður liðsins.

Flórensliðið gat þó ekki andað léttar fyrr en Dodo minnkaði muninn á 79. mínútu og Úkraínumennirnir þurftu aftur tvö mörk.

Luca Ranieri jafnaði svo metin á 86. mínútu en Gosens lagði upp bæði mörkin.

Edin Dzeko skoraði síðan þriðja markið þremur mínútum síðar. Það reyndist vera sigurmarkið í leiknum.

Gísli Gottskálk Þórðarson og félagar í Lech Poznan misstu af Evrópudeildinni en verða með í Sambandsdeildinni.

Lech Poznan vann Genk 2-1 á útivelli í kvöld en tapaði 6-3 samanlagt eftir stórtap í fyrri leiknum. Gísli Gottskálk byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður í hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×