Uppgjörið: Ísland - Belgía 64-71 | Ofboðslega svekkjandi tap hjá íslenska liðinu Hjörvar Ólafsson skrifar 30. ágúst 2025 14:07 Tryggvi Snær Hlinason var atkvæðamestur hjá íslenska liðinu í þessum leik. Vísir/Hulda Margrét Íslenska karlalandsliðið í körfubolta kastaði frá sér unnum leik þegar liðið mætti Belgíu í annarri umferð í D-riðli á EuroBasket 2025 í Spodek-höllinni í Katowice í Póllandi í dag. Góður möguleiki var á fyrsta sigri Íslands á stórmóti í 12. tilraun en liðið var sjö stigum yfir þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Eftir tvo leiki á mótinu er Ísland án sigurs en í fyrstu umferðinni laut liðið í lægra haldi fyrir Ísrael og nú þarf íslenska liðið að jafna sig hratt á þessu svekkjandi tapi gegn Belgum. Næstu móthejar Íslands eru heimamenn, Pólverjar, en liðið leiða saman hesta sína annað kvöld. Íslenska liðið fór vel af stað og góður taktur var á liðinu fram eftir leik á báðum endum vallarins. Það seig aftur á móti á ógæfuhliðina þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og því fór sem fór. Martin Hermannsson fékk tvær villur á fyrstu mínútum fyrsta leikhluta og þurfti af þeim sökum að hvíla meira í þeim leikhluta en þjálfarateymið áætlaði. Íslenska liðið spilaði afar góða vörn í fyrsta leikhluta en meiri rótering var á liðinu en í fyrsta leiknum. Jón Axel Guðmundsson spilaði flotta vörn. Vísir/Hulda Margrét Hilmar Smári Henningsson og Kristinn Pálsson komu inn í byrjunarliðið fyrir Jón Axel Guðmundsson og Orra Gunnarsson. Kári Jónsson, Ægir Þór og Jón Axel komu svo með góða orku af bekknum. Tryggvi Snær var atkvæðamestur hjá íslenska liðinu framan af leik en hann var kominn með 10 stig og sex fráköst um miðjan annan leikhluta. Raunar gekk leikmönnum íslenska liðsins betur í frákastabaráttunni í þessum leik en í tapinu á móti Ísrael. Ísland var 21-17 yfir eftir fyrsta leikluta og komst svo í 30-25 með annarri þriggja stiga körfu Kristins í leiknum. Þremur mínútum fyrir lok annars leikhluta fékk Martin sína þriðju villu og sat það sem eftir lifði hálfleiksins á bekknum vegna þess. Elvar Már Friðriksson steig upp í fjarveru Martins af parketinu og setti niður sex stig í kjölfar þess að æskuvinur hans hvarf tímabundið af vettvangi. Elvar Már Friðriksson átti nokkrar mikilvægar körfur í leiknum. Vísir/Hulda Margrét Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 36-32 en íslenska liðið náði mest sjö stiga forystu en það gerðist fjórum sinnum í leiknum. Ísland náði aldrei að slíta sig lengra frá Belgum þrátt fyrir nokkur tækifæri til þess. Íslenska liðið var einmitt sjö stigum, 62-55 þegar um það bil fimm mínútur voru eftir af leiknum. Martin átti þá sína sjöundu stoðsendingu á leiknum á Tryggva Snæ sem tróð með tilþrifum. Allt leit vel út og það glitti í sögulegan sigur hjá íslenska liðinu. Þá kom stífla hjá Íslandi sem skoraði einungis tvö stig á síðustu fimm mínútum leiksins en Tryggvi Snær, sem var stigahæstur íslensku leikmannanna með 20 stig, skoruðu þau af vítalínunni. Allt fór í baklás hjá íslenska liðinu sem þurfti að lokum að sætta sig við sjö stiga tap. Ísland var yfir í 32 mínútur í þessum leik en Belgar í rúmar tvær mínútur. Það sem skiptir mestu máli þó er að Ísland var undir þegar lokaflautan gall. Martin Hermannsson var mun betri í þessum leik en í rimmunni við Ísrael. Vísir/Hulda Margrét Betur gekk hjá leikmönnum Íslands í frákastabaráttunni að þessu sinni en á móti Ísrael en íslenska liðið tók 39 fráköst á móti 43 fráköstum belgíska liðins. Tryggi Snær tók 10 af þeim fráköstum. Belgar fengu þó 20 stig í annarri tilraun sinni í sóknum sínum en Íslendingar einungis fjögur. Aftur varð þó slök nýting íslenska liðsins fyrir utan þriggja stiga línuna liðinu að falli. Einvörðungu þrjú af 22 þriggja stiga skotum rötuðu rétta leið eða 14% skotnýting sem er ekki líkleg til árangurs. Undir lok leiksins vantaði trúna á að fyrsti sigur Íslands á stórmóti kæmi. Sóknarleikur liðsins stífnaði og það vantaði að lykilleikmenn liðsins sýndu þann karakter sem þarf til þess að setja niður mikilvæg stig þegar á hólminn var komið. Tryggvi Snær spilaði 39 mínútur í þessum leik og eðlilega dró af honum á lokamínútum leiksins. Það var þó Tryggvi Snær sem skoraði fjögur síðustu stig Íslands í leiknum en það mæddi gríðarlega á honum bæði í vörn og sókn. Kristinn Pálsson skoraði tvær af þeim þremur þriggja stiga körfum sem Ísland setti niður. Vísir/Hulga Margrét EM 2025 í körfubolta Landslið karla í körfubolta
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta kastaði frá sér unnum leik þegar liðið mætti Belgíu í annarri umferð í D-riðli á EuroBasket 2025 í Spodek-höllinni í Katowice í Póllandi í dag. Góður möguleiki var á fyrsta sigri Íslands á stórmóti í 12. tilraun en liðið var sjö stigum yfir þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Eftir tvo leiki á mótinu er Ísland án sigurs en í fyrstu umferðinni laut liðið í lægra haldi fyrir Ísrael og nú þarf íslenska liðið að jafna sig hratt á þessu svekkjandi tapi gegn Belgum. Næstu móthejar Íslands eru heimamenn, Pólverjar, en liðið leiða saman hesta sína annað kvöld. Íslenska liðið fór vel af stað og góður taktur var á liðinu fram eftir leik á báðum endum vallarins. Það seig aftur á móti á ógæfuhliðina þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og því fór sem fór. Martin Hermannsson fékk tvær villur á fyrstu mínútum fyrsta leikhluta og þurfti af þeim sökum að hvíla meira í þeim leikhluta en þjálfarateymið áætlaði. Íslenska liðið spilaði afar góða vörn í fyrsta leikhluta en meiri rótering var á liðinu en í fyrsta leiknum. Jón Axel Guðmundsson spilaði flotta vörn. Vísir/Hulda Margrét Hilmar Smári Henningsson og Kristinn Pálsson komu inn í byrjunarliðið fyrir Jón Axel Guðmundsson og Orra Gunnarsson. Kári Jónsson, Ægir Þór og Jón Axel komu svo með góða orku af bekknum. Tryggvi Snær var atkvæðamestur hjá íslenska liðinu framan af leik en hann var kominn með 10 stig og sex fráköst um miðjan annan leikhluta. Raunar gekk leikmönnum íslenska liðsins betur í frákastabaráttunni í þessum leik en í tapinu á móti Ísrael. Ísland var 21-17 yfir eftir fyrsta leikluta og komst svo í 30-25 með annarri þriggja stiga körfu Kristins í leiknum. Þremur mínútum fyrir lok annars leikhluta fékk Martin sína þriðju villu og sat það sem eftir lifði hálfleiksins á bekknum vegna þess. Elvar Már Friðriksson steig upp í fjarveru Martins af parketinu og setti niður sex stig í kjölfar þess að æskuvinur hans hvarf tímabundið af vettvangi. Elvar Már Friðriksson átti nokkrar mikilvægar körfur í leiknum. Vísir/Hulda Margrét Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 36-32 en íslenska liðið náði mest sjö stiga forystu en það gerðist fjórum sinnum í leiknum. Ísland náði aldrei að slíta sig lengra frá Belgum þrátt fyrir nokkur tækifæri til þess. Íslenska liðið var einmitt sjö stigum, 62-55 þegar um það bil fimm mínútur voru eftir af leiknum. Martin átti þá sína sjöundu stoðsendingu á leiknum á Tryggva Snæ sem tróð með tilþrifum. Allt leit vel út og það glitti í sögulegan sigur hjá íslenska liðinu. Þá kom stífla hjá Íslandi sem skoraði einungis tvö stig á síðustu fimm mínútum leiksins en Tryggvi Snær, sem var stigahæstur íslensku leikmannanna með 20 stig, skoruðu þau af vítalínunni. Allt fór í baklás hjá íslenska liðinu sem þurfti að lokum að sætta sig við sjö stiga tap. Ísland var yfir í 32 mínútur í þessum leik en Belgar í rúmar tvær mínútur. Það sem skiptir mestu máli þó er að Ísland var undir þegar lokaflautan gall. Martin Hermannsson var mun betri í þessum leik en í rimmunni við Ísrael. Vísir/Hulda Margrét Betur gekk hjá leikmönnum Íslands í frákastabaráttunni að þessu sinni en á móti Ísrael en íslenska liðið tók 39 fráköst á móti 43 fráköstum belgíska liðins. Tryggi Snær tók 10 af þeim fráköstum. Belgar fengu þó 20 stig í annarri tilraun sinni í sóknum sínum en Íslendingar einungis fjögur. Aftur varð þó slök nýting íslenska liðsins fyrir utan þriggja stiga línuna liðinu að falli. Einvörðungu þrjú af 22 þriggja stiga skotum rötuðu rétta leið eða 14% skotnýting sem er ekki líkleg til árangurs. Undir lok leiksins vantaði trúna á að fyrsti sigur Íslands á stórmóti kæmi. Sóknarleikur liðsins stífnaði og það vantaði að lykilleikmenn liðsins sýndu þann karakter sem þarf til þess að setja niður mikilvæg stig þegar á hólminn var komið. Tryggvi Snær spilaði 39 mínútur í þessum leik og eðlilega dró af honum á lokamínútum leiksins. Það var þó Tryggvi Snær sem skoraði fjögur síðustu stig Íslands í leiknum en það mæddi gríðarlega á honum bæði í vörn og sókn. Kristinn Pálsson skoraði tvær af þeim þremur þriggja stiga körfum sem Ísland setti niður. Vísir/Hulga Margrét