Fótbolti

Lang­þráður leikur Bryn­dísar Örnu

Sindri Sverrisson skrifar
Bryndís Arna Níelsdóttir er byrjuð að spila að nýju.
Bryndís Arna Níelsdóttir er byrjuð að spila að nýju. Vísir/Bjarni

Eftir að hafa misst af EM í sumar vegna meiðsla lék Bryndís Arna Níelsdóttir langþráðar mínútur í dag með Växjö í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Bryndís lék sinn fyrsta leik síðan í apríl þegar hún kom inn á sem varamaður í 3-1 tapi gegn toppliði Malmö á útivelli í dag.

Hún meiddist í læri á æfingu í vor en gat spilað að nýju þegar hún kom inn á á 82. mínútu í dag. Þá var staða Växjö hins vegar orðin erfið og fleiri mörk voru ekki skoruð.

Íslendingaliðið Kristianstad tapaði einnig, 3-0 á heimavelli gegn AIK. Alexandra Jóhannsdóttir lék allan leikinn á miðjunni hjá Kristianstad og Guðný Árnadóttir kom inn á þegar um hálftími var eftir.

Sigdís Eva Bárðardóttir spilaði svo síðustu mínúturnar fyrir Norrköping í 2-1 útisigri gegn Piteå.

Eins og fyrr segir er Malmö efst í deildinni, með 38 stig, en Hammarby kemur næst með 36, og Häcken er með 33 og leik til góða.

Kristianstad er í 5. sæti með 26 stig, Norrköping í 7. sæti með 24 og Växjö í 10. sæti með 17 stig, fjórum stigum fyrir ofan umspilsfallsæti og níu stigum frá beinu falli, þegar tíu umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×