Erlent

Rúm­lega sex hundruð látnir eftir skjálfta í Afgan­istan

Atli Ísleifsson skrifar
Skjálftinn varð í austurhluta landsins.
Skjálftinn varð í austurhluta landsins. AP

Að minnsta kosti sex hundruð eru látnir eftir jarðskjálfta sem reið yfir austurhluta Afganistans í gærkvöldi. Skjálftinn var sex stig að stærð og er óttast að tala látinna eigi eftir að hækka eftir því sem björgunaraðilar ná til fleiri þorpa en skjálftinn varð á fremur afskekktu svæði í landinu.

Í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti landsins segir að staðfest dauðsföll séu 610 og að fleiri en þrettán hundruð hafi slasast. 

Upptök skjálftans voru í 27 kílómetra fjarlægð frá borginni Jalalabad, sem er sú fimmta stærsta í Afganistan og í 140 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Kabúl. Þar fannst skjálftinn greinilega og einnig í Islamabad höfuðborg Pakistans.

Stærsti skjálftinn var sex stig að stærð.USGS

Eftirskjálftar hafa verið fjölmargir og hafa þeir hamlað björgunarstörfum auk þess sem skriður hafa fallið víða á vegi á leiðinni inn að skjálftasvæðunum.

Talsmenn stjórnar Talibana segja að heilu þorpin hafi eyðilagst í skjálftanum.

Mikil flóð voru í á skjálftasvæðinu um helgina – í héruðunum Nangarhar og Kunar – þar sem aurskriður féllu víða og ollu skemmdum á innviðum. Yfirvöld segja fimm hafa látið lífið í flóðunum um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×