Fótbolti

Svíar sóttu jafn­tefli og Ítalir möluðu Eista

Siggeir Ævarsson skrifar
Alexander Isak var kampakátur á æfingu fyrir leik en sat svo bara allan tímann á bekknum, enda ekki í neinu leikformi
Alexander Isak var kampakátur á æfingu fyrir leik en sat svo bara allan tímann á bekknum, enda ekki í neinu leikformi EPA/JONAS EKSTROMER

Alls fóru tíu leikir fram í kvöld í undankeppni HM 2026. Leik Svíþjóðar og Slóveníu var beðið með nokkurri eftirvæntingu þar sem Alexander Isak var mættur til leiks.

Isak endaði reyndar á að sitja allan leikinn á bekknum enda ekki í neinni leikæfingu. Án hans tókst Svíum engu að síður að sækja eitt stig til Slóveníu en lokatölur leiksins urðu 2-2 en Slóvenar jöfnuðu leikinn á 90. mínútu.

Í hinum leik kvöldsins í B-riði tók Sviss Kósóvó í létta kennslustund þar sem Breel Embolo skoraði tvö mörk í 4-0 heimasigri Sviss.

Í C-riðli tóku frændur okkar Danir á móti Skotum í leik sem endaði 0-0 sem eru eflaust úrslit sem bæði lið eru óánægð með, en Skotar hafa ekki komist á lokakeppni HM síðan 1998. Þá unnu Grikkir sannfærandi 5-1 sigur á Belarús og tylla sér afgerandi á topp riðilsins um stund.

Ítalir tóku Eista í bakaríkið í I-riðli 5-0 en öll mörkin komu í seinni hálfleik og síðustu tvö í blálokin. Þá unnu Ísraelar öruggan 0-4 sigur á Moldóvu.

Við áttum fleiri frændur í eldlínunni í kvöld en Færeyingar þurftu að sætta sig við 0-1 tap á heimavelli gegn Króötum. Færeyingar leika í L-riðli ásamt Tékkum og Svartfellingum en Tékkar sóttu Svartfjallaland heim í kvöld og fóru með 0-2 sigur af hólmi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×