Veður

Má reikna með vatna­vöxtum suðaustan­til

Atli Ísleifsson skrifar
Viðbúið er að vatn fari að safnast saman við svona mikla úrkomu.
Viðbúið er að vatn fari að safnast saman við svona mikla úrkomu. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir austan átta til fimmtán metrum á sekúndu á austanverðu landinu í dag og hvassara um tíma suðaustantil og við austurströndina. Það verður þó mun hægari á vesturhelmingi landsins.

Á vef Veðurstofunnar segir að reikna megi með dálitlum skúrum, en undir kvöld sé útlit fyrir talsverða rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum.

Viðbúið er að vatn fari að safnast saman við svona mikla úrkomu á svipuðum slóðum og má því búast við vatnavöxtum um landið suðaustanvert.

Hlýnar í veðri, hiti víða tíu til sextán stig.

„Á morgun gera spár ráð fyrir mun rólegra veðri og hvergi mikil úrkoma en síðan er að sjá að bæti í rigningu, einkum sunnan- og austantil á miðvikudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Sunnan og suðvestan 5-13 m/s með skúrum, en hvassara við norðausturströndina framan af. Hægari suðlæg átt undir kvöld og dregur víða úr vætu. Hiti 9 til 16 stig.

Á miðvikudag: Austan 5-13 og dálitlar skúrir í fyrstu, hvassast austantil. Fer síðan að rigna, talsverð úrkoma á Suður - og Austurlandi seinnipartinn. Hiti 8 til 13 stig.

Á fimmtudag: Austan og norðaustan 5-13 og víða dálítil rigning með köflum, en talsverð rigning suðaustanlands. Úrkomuminna undir kvöld. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Norðaustlæg átt og víða rigning með köflum, en léttir til um landið suðvestanvert. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á laugardag og sunnudag: Útlit fyrir norðaustlæga eða breytilega átt og víða skúrir. Hiti 7 til 13 stig, en heldur svalara á Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×