Innlent

Mikill meiri­hluti hlynntur Hvamms­virkjun

Kjartan Kjartansson skrifar
Séð yfir áhrifasvæði Hvammsvirkjunar. Þjórsá verður stífluð á móts við Skarðsfjall, sem sést hægra megin fyrir miðju. Kirkjustaðurinn Stórinúpur lengst til vinstri. Fjær sjást Búrfell fyrir miðri mynd og Hekla til hægri.
Séð yfir áhrifasvæði Hvammsvirkjunar. Þjórsá verður stífluð á móts við Skarðsfjall, sem sést hægra megin fyrir miðju. Kirkjustaðurinn Stórinúpur lengst til vinstri. Fjær sjást Búrfell fyrir miðri mynd og Hekla til hægri. Landsvirkjun

Tæp sextíu prósent svarenda í skoðanakönnun segjast hlynnt Hvammsvirkjun í Þjórsá en aðeins rúmur fimmtungur er andsnúinn. Gríðarlegur munur er á afstöðu kynjanna til virkjunarinnar en mun fleiri karlar eru fylgjandi henni en konur.

Lengi hefur verið deilt um virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunnar í Þjórsá. Tekist hefur verið á um þær fyrir dómstólum og hjá opinberum úrskurðarnefndum. Eins og sakir standa hefur Landsvirkjun bráðabirgðaframkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir eftir að Hæstiréttur staðfesti ógildingu neðri dómstiga á virkjunarleyfi í sumar.

Landsmenn eru almennt hlynntir Hvammsvirkjun ef marka má niðurstöður könnunar Maskínu sem voru birtar í dag. Þar sögðust 59 prósent fylgjandi, þar af rúmlega þriðjungur mjög hlynntur. Tuttugu og eitt prósent sögðust andvíg, þar af 10,3 prósent mjög andvíg.

Heil 71,1 prósent karla sagðist hlynnt virkjuninni en aðeins 39,6 prósent kvenna. Hátt í þriðjungur kvenna sagðist andvígur en innan við fimmtán prósent karla.

Meirihluti er hlynntur Hvammsvirkjun í öllum landshlutum. Stuðningurinn er minnstur í Reykjavík, 51,5 prósent fylgjandi en 27,2 prósent andvíg. Mestur stuðningur við verkefnið mælist á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem nærri því þrír af hverjum fjórum sögðust hlynntir virkjuninni.

Stuðningur við virkjunina er meiri á meðal kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna á þingi en stjórnarflokkanna. Þannig eru allt frá 81 og upp í 85 prósent kjósenda Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins fylgjandi virkjuninni en 47,8 prósent samfylkingarfólks, 66 prósent viðreisnar fólks en aðeins rúm þrjátíu prósent kjósenda Flokks fólksins.

Könnunin var framkvæmd dagana 18.-21. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×