Erlent

Kveikt í þinghúsinu og for­sætis­ráð­herrann hrökklast frá

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi býr sig undir að kasta mynd af Khadga Prasad Oli, forsætisráðherra Nepals, á bálköst í Katmandú í dag.
Mótmælandi býr sig undir að kasta mynd af Khadga Prasad Oli, forsætisráðherra Nepals, á bálköst í Katmandú í dag. Vísir/EPA

Mótmælendur í Nepal lögðu eld að þinghúsinu í höfuðborginni Katmandú í dag. Afsögn forsætisráðherrans gerði lítið til að lægja öldurnar eftir að lögreglumenn skutu fjölda mótmælenda til bana og særðu enn fleiri í gær.

Mótmælin í Nepal beinast að samfélagsmiðlabanni stjórnvalda sem þau hafa nú bakkað með. Þjóðin er aftur á móti slegin eftir að lögreglumenn skutu að minnsta kosti nítján mótmælendur til bana í gær og þrír aðrir voru drepnir í dag.

Reiður múgur ruddist inn í þinghúsið í dag, braut rúður og kveikti eld. Einnig hafa mótmælendur ráðist á aðrar stjórnarbyggingar í Katmandú. Alþjóðaflugvelli borgarinnar er lokaður vegna óróans. Forseti landsins og fulltrúar hersins hafa hvatt mótmælendur til þess að sýna stillingu.

Fyrr í dag sagði Khadga Prasad Oli af sér sem forsætisráðherra. Hann á engu að síður að stýra áfram starfsstjórn. AP-fréttastofan segir þó óljóst hvar Oli er niður kominn.

Undir reiðinni vegna samfélagsmiðlabannsins kraumaði gremja mótmælenda vegna landlægrar spillingar og bágs atvinnuástands ungs fólks. Atvinnuleyyi á meðal yngra fólks var tuttugu prósent í fyrra samkvæmt gögnum Alþjóðabankans. Stjórnvöld í Nepal áætla að um tvö þúsund ungmenni yfirgefi land á hverjum degi í leit að atvinnutækifærum annars staðar.


Tengdar fréttir

Skutu mót­mæ­lendur til bana við þing­húsið í Nepal

Lögreglumenn drápu að minnsta kosti átta manns og særðu tugi til viðbótar þegar þeir skutu á mótmælendur sem reyndu að ryðjast inn í þinghúsið í Katmandú, höfuðborg Nepals í dag. Tugir þúsunda manna mótmæla banni stjórnvalda við flestum samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×