Erlent

Hyggjast bólu­setja kóalabirni gegn klamydíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Klamydía er afar hættuleg kóalabjörnum.
Klamydía er afar hættuleg kóalabjörnum. Getty/WireImage/Don Arnold

Yfirvöld í Ástralíu hafa lagt blessun sína yfir notkun bóluefnis gegn klamydíu sem vísindamenn vonast til að geti bjargað kóalabjörnum frá útrýmingu.

Klamydíufaraldur hefur herjað á kóalabirni í austurhluta Ástralíu og smithlutfallið verið allt að 70 prósent. Sjúkdómurinn smitast við náin samskipti og mökun, auk þess sem ungviði getur smitast í poka móðurinnar.

Sjúkdómurinn veldur sársaukafullum þvagfærasýkingum, blindu og ófrjósemi og dregur dýrinn oft til dauða. Meðferðin við sjúkdómnum getur hins vegar einnig valdið dauða, þar sem gefa þarf sýklalyf sem fara illa með bakteríuflóru magans og kemur í veg fyrir að birnirnir geti melt tröllatrés-plöntuna, sem þeir lifa á.

Talið er að um helming allra dauðsfalla kóalabjarna í austurhluta Ástralíu megi rekja til klamydíu. Um er að ræða þúsundir dýra en stofnin er talin telja um 50.000 dýr. Sérfræðingar óttast að útrýmingu kóalabjarnarins í sumum ríkjum landsins á næstu áratugum.

Bólefnið sem um ræðir hefur verið í þróun í um áratug. Það er talið minnka dánartíðnina vegna klamydíu um 65 prósent. Vonir standa til að hægt verði að hefja notkun þess í janúar á næsta ári en ljóst þykir að aðgerðin verður umfangsmikil og kostnaðarsöm og hún er enn ófjármögnuð.

BBC fjallar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×