Handbolti

Ómar Ingi fór á­fram ham­förum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon hefur skorað 37 mörk í fyrstu fjórum leikjum Magdeburg á tímabilinu.
Ómar Ingi Magnússon hefur skorað 37 mörk í fyrstu fjórum leikjum Magdeburg á tímabilinu. getty/Andreas Gora

Magdeburg vann sex marka sigur á Paris Saint-Germain, 37-31, í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld. Ómar Ingi Magnússon lét mikið að sér kveða.

Ómar hefur farið frábærlega af stað í þýsku úrvalsdeildinni og er markahæsti leikmaður hennar með 32 mörk í þremur leikjum.

Selfyssingurinn hélt uppteknum hætti gegn PSG og skoraði sjö mörk úr jafn mörgum skotum. Hann var næstmarkahæstur í liði Magdeburg á eftir Svíanum Felix Claar sem skoraði tíu mörk.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf fimm stoðsendingar fyrir Magdeburg og Elvar Örn Jónsson skoraði eitt mark í sínum fyrsta Evrópuleik fyrir liðið. Hann kom til Magdeburg frá Melsungen í sumar.

Pólski línumaðurinn Kamil Syprzak skoraði ellefu mörk fyrir PSG sem var yfir fram í miðjan fyrri hálfleik þegar Magdeburg tók völdin.

Magdeburg, sem vann Meistaradeildina 2023 og 2025, var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 21-17, og náði mest sjö marka forskoti í seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×