Erlent

Banda­ríkja­stjórn fargar getnaðar­vörnum fyrir 9,7 milljónir dala

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ákvörðun Trump um að draga verulega saman í starfsemi U.S.A.I.D. hefur haft miklar afleiðingar í för með sér í fátækari ríkjum  heims, þar sem stofnunin stóð fyrir ýmiskonar hjálparstarfi.
Ákvörðun Trump um að draga verulega saman í starfsemi U.S.A.I.D. hefur haft miklar afleiðingar í för með sér í fátækari ríkjum heims, þar sem stofnunin stóð fyrir ýmiskonar hjálparstarfi. Getty/Michel Lunanga

Bandaríkjastjórn hefur látið farga getnaðarvörnum sem metnar voru á 9,7 milljónir dala og voru ætlaðar til dreifingar í fátækjum ríkjum. Ákvörðunin var tekin þrátt fyrir að ýmsir aðilar hefðu boðist til að kaupa birgðirnar og dreifa þeim.

Getnaðarvarnirnar, þar á meðal pillan, lykkjan og hormónastafurinn, voru keyptar af bandarísku hjálparstofnuninni U.S.A.I.D. áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði að hún skyldi í raun lögð niður.

Síðan þá hafa birgðirnar beðið endanlegrar ákvörðunar í vöruhúsi í Belgíu.

Nokkuð hefur verið deilt um það hvað ætti að gera við getnaðarvarnirnar en utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur lýsti yfir þeirri afstöðu að þær séu ekki „lífsbjargandi“ og Bandaríkin hyggist ekki lengur sjá fátækum ríkjum fyrir getnaðarvörnum.

Þá sagði talskona U.S.A.I.D. í gær, þegar hún greindi frá því að birgðunum hefði verið fargað, að forsetinn hefði heitið því að vernda líf ófæddra barna út um allan heim. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum sem erlendir miðlar hafa undir höndum var aðeins um að ræða getnaðarvarnir, ekki þungunarrofslyf.

New York Times segist hafa heimildir fyrir því að nokkur alþjóðleg samtök, meðal annars Gates Foundation og Children's Investment Fund Foundation, hafi boðist til að taka við birgðunum eða jafnvel greiða fyrir þær.

Nýir embættismenn hjá U.S.A.I.D. héldu því hins vegar fram í minnisblaði að enginn kaupandi hefði fundist. Fjórtán mínútum eftir að hann fékk það minnisblað, fyrirskipaði yfirmaður erlendrar aðstoðar hjá utanríkisráðuneytinu að birgðunum skyldi fargað.

Förgunin er sögð hafa kostað um það bil 170 þúsund dali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×