Sport

Sigur­björn Árni um Stera­leikana: Gæti orðið fram­tíðin með nægu fjár­magni

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurbjörn Árni Arngrímsson vonast til þess að Steraleikar séu ekki framtíðin í íþróttum en segir að það gæti þó gerst.
Sigurbjörn Árni Arngrímsson vonast til þess að Steraleikar séu ekki framtíðin í íþróttum en segir að það gæti þó gerst. Samsett/Getty/Bylgjan

„Já, það getur náðst ótrúlegur árangur þarna, þangað til að einhver hnígur niður í miðri keppni með hjartaáfall,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, frjálsíþróttalýsandi, um hina svokölluðu „Steraleika“, eða Enhanced Games.

Áætlað er að leikarnir verði haldnir í fyrsta sinn í maí á næsta ári en keppendur á þeim mega nota öll þau árangursaukandi lyf sem þeir kjósa.

Á meðan að afreksíþróttafólk á almennt á hættu að falla á lyfjaprófi þá verður ekkert um slík próf í tengslum við leikana. Varað hefur verið heilsufarsvandamálunum sem fylgja því að hvetja fólk til að nota ólögleg efni og Sigurbjörn Árni tekur undir þessar áhyggjur en hann ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni. Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan.

„„Dópleikar“ er bara mjög fínt orð,“ segir Sigurbjörn Árni um orðið sem að þáttastjórnendur völdu um leikana.

Hann bendir á að íþróttafólk geri ýmislegt til að auka árangur – neyti til dæmis fæðubótarefna eða æfi í lægri loftþrýstingi til að auka magn rauðra blóðkorna. Þá sé alltaf spurning hvaða búnaður sé leyfilegur í keppni.

„Þetta er alltaf spurning um hvað er leyfilegt og hvernig jöfnum við keppnina. Við viljum að fólk keppi á jafnréttisgrundvelli og einn slíkur grundvöllur er að segja að það megi allt. Að þú getir bara gert það sem þú vilt. En svo veltir maður fyrir sér, má maður vera með gorma í hástökki? Má vera með aukabúnað eða þannig?“ spyr Sigurbjörn Árni.

Sterar bannaðir til að passa að fólk skaði sig ekki

Hann vonast til þess að framtíð íþrótta sé ekki sú að öll lyfjanotkun verði leyfileg, sama hve skaðleg hún sé fyrir íþróttafólkið.

„Ástæðan fyrir því að dóp er almennt bannað er ekki bara að það bæti getuna heldur er líka verið að hafa vit fyrir mönnum. Lífeðlisfræðilegar og læknisfræðilegar rannsóknir sýna fram á það að steranotkun eykur til dæmis talsvert líkurnar á að þú deyir úr hjartaáfalli.

Þetta er bara eins og með öryggisbelti. Það er einhver sem ákveður það að fólk verði að vera með öryggisbelti og það er verið að hafa vit fyrir okkur til þess að ef við lendum í slysi séu minni líkur á að við deyjum. Þetta er eins með lyfin. Það er verið að passa að þú skaðir þig ekki,“ segir Sigurbjörn.

Mögulega framtíðin ef þarna fæst mun meiri peningur

Ljóst sé þó að margt íþróttafólk reyni sífellt að þrýsta á þolmörk þess sem leyfilegt sé og fari oft yfir strikið, þó það komist ekki alltaf upp strax.

„Það er oft skondið hvernig þetta kemst upp. Til dæmis með blóðdópunina, þar sem þolíþróttamenn töppuðu af sér blóði jafnt og þétt yfir æfingatímabilið og svo rétt fyrir keppni þá settu þeir í sig 3-4 aukalítra, þannig að blóðþrýstingurinn rauk upp. Líkaminn losar sig við aukablóðvökvann en þú pissar ekki blóðkornunum og ert þá með þykkara blóð, sem bæði getur stíflað og eykur flutningsgetu súrefnisins, svo þú verður betri í þolgreinunum. En það komst upp um þetta því menn voru líka að taka stera. Þeir tóku úr sér sýkt sterablóð og þannig komst það upp,“ segir Sigurbjörn.

Hann segir ganga mun betur að eiga við ólöglega lyfjanotkun eftir að WADA, alþjóða lyfjaeftirlitið, kom til sögunnar. Það verði svo að koma í ljós hvernig framtíð Steraleikanna verði:

„Þetta er mögulega framtíðin ef þeim tekst að koma með nógu mikla peninga. Ef íþróttamenn fá mikið meiri peninga fyrir að taka þátt í þessu en í lyfjaprófuðum íþróttum, þá kannski færist þetta þangað,“ segir Sigurbjörn en viðtalið má heyra hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×