Innlent

Þrjú inn­brot og alltaf fúlsað við verkunum: „Þetta er kannski smá yfir­lýsing“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Pétur Gautur listmálari er landsmönnum mörgum vel kunnugur.
Pétur Gautur listmálari er landsmönnum mörgum vel kunnugur. vísir/ívar

Þrisvar hefur verið brotist inn hjá landsþekktum myndlistarmanni sem segir að nú sé endanlega búið að spilla vinnurýminu fyrir honum. Í hvert skipti voru listaverk hans látin vera og segir hann liggja við að hann taki því persónulega. 

Myndlistarmaðurinn Pétur Gautur og eiginkona hans héldu upp á 27 ára brúðkaupsafmæli um helgina og stefndu á að enda kvöldið á vinnustofu Péturs við Snorrabraut. Þau voru því búin að fylla ísskápinn af bjór en enduðu að lokum kvöldið annars staðar.

Þegar Pétur sneri svo aftur á vinnustofuna í gær var allt á rú og stú. Búið að taka gítar, fartölvu og stærðarinnar hátalara og þá var bjórinn á bak og burt.

„Hvað gerðist hér??“

Pétur lýsti aðkomunni á vinnustofuna fyrir fréttastofu:

„Lyklaboxið var opið. Það var búið að spenna það upp eða einhver sem vissi númerið. Hér var allt út um allt. Búið að sparka hundamatnum um allt gólf og það hefur bara gerst því þeir voru að flýta sér og voru að hlaupa. Síðan fórum við bara að sjá að þetta vantar, þetta vantar og hvað gerðist hér??“

Þjófur fúlsaði við málverkunum en tók nóg af bjór

Hann biðlar til fólks sem kann að sjá muni hans til sölu á netinu eða annars staðar að hafa samband við lögreglu. Tjónið nemi allt að einni milljón. 

„Mig langar ekkert að mála hér framar“

Verkin allt um kring hlaupi þó á nokkrum milljónum.

„En það voru engin málverk tekin. Sko þetta er þriðja innbrotið sem ég verð fyrir. Tvö hér og eitt uppi í sumarbústað. Málverkin mín eru alltaf látin í friði. Þetta er kannski smá yfirlýsing (e. statement). Kannski er þetta alltaf sami maðurinn ég veit það ekki.“ 

Kannski er þetta ásett ráð hjá honum að auðmýkja þig? 

„Já ég held það en það er bara frábært að málverkin skuli látin í friði.“

https://www.visir.is/g/20222300060d/romantiskur-sumarbustadur-peturs-gauts-og-berglindar

Hann sé ekki tryggður og ætli ekki að treysta á lyklabox aftur.

„Nú er bara lykillinn í buxnavasanum. Nú er ekkert lyklabox. Nú fara myndavélakerfi hérna út um allt og í sumarbústaðnum líka. Það fer ekki mýfluga hérna inn nema við vitum af því. Mín fyrsta tilfinning var eins og þegar það var ráðist inn í sumarbústaðinn okkar og konan mín sagði ég vil aldrei koma hingað framar. Það var dálítið svoleiðis í gær. Mig langar ekkert að mála hér framar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×