Körfubolti

NBA Evrópudeildin muni hefjast eftir tvö ár

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Deildin myndi eflaust auka vinsældir NBA í Evrópu mikið.
Deildin myndi eflaust auka vinsældir NBA í Evrópu mikið.

Nýstofnaða breska úrvalsdeildin í körfubolta virðist óvart hafa staðfest að NBA Evrópudeildin, sem hefur verið rætt um lengi, muni hefja göngu sína eftir tvö ár.

Breska úrvalsdeildin er ný körfuboltadeild í Bretlandi sem átti að byrja haustið 2026 en í skriflegu svari til Yorkshire Post sögðu forráðamenn deildarinnar að hún muni hefjast ári síðar, haustið 2027, á sama tíma og NBA Evrópudeildin. Tvö lið úr bresku deildinni, frá Manchester og Lundúnum, muni taka þátt þar.

Þetta er fyrsta „staðfesting“ á því að NBA Evrópudeildin muni hefja göngu sína en hún hefur verið til umræðu um árabil.

Hugmyndin hefur lengi verið á lofti og snýr að keppni milli stórliða úr NBA og evrópska körfuboltanum, ásamt nýjum liðum úr stórborgum Evrópu. 

Nú virðist sem svo að lið verði stofnuð í Manchester og Lundúnum, sem munu þá taka þátt bæði í bresku úrvalsdeildinni og NBA Evrópudeildinni.

Stjórnendur NBA hafa sett sig í samband við fleiri áhugasama aðila og átt fundi með forráðamönnum Real Madrid, Alba Berlin, Galatasaray og eigendum fótboltaliðs PSG.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×