Sport

Bann bitvargsins stytt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Axelle Berthoumieu tekur ekki frekari þátt á heimsmeistaramótinu í rugby.
Axelle Berthoumieu tekur ekki frekari þátt á heimsmeistaramótinu í rugby. getty/Harry Murphy

Búið er að stytta bann franska rugby-leikmannsins Axelle Berthoumieu um þrjá leiki. Hún beit andstæðing í leik á HM.

Á sunnudaginn áttust Frakkar og Írar við í átta liða úrslitum á HM sem fer fram á Englandi um þessar mundir. Í upphafi seinni hálfleiks beit Berthoumieu leikmann írska liðsins, Aofie Wafer, í handlegginn.

Wafer og Írar brugðust ókvæða við en dómari leiksins missti af bitinu og aðhafðist því ekkert. Berthoumieu slapp þó ekki við refsingu því hún var úrskurðuð í tólf leikja bann.

Berthoumieu áfrýjaði úrskurðinum og bann hennar hefur nú verið stytt um þrjá leiki. Hún þarf því að afplána níu leikja bann en ekki tólf. 

Samkvæmt aganefnd sýndi Berthoumieu iðrun auk þess sem hún baðst afsökunar opinberlega. Þá hafi hún almennt hagað sér vel inni á vellinum í gegnum tíðina.

Berthoumieu missir af leik Frakklands og heimaliðs Englands í undanúrslitum HM á laugardaginn sem og úrslitaleiknum eða leiknum um 3. sætið 27. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×