Fótbolti

Nýi þjálfarinn hvíldi Elías í bikarsigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elías Rafn tók því rólega á varamennabekknum í dag. 
Elías Rafn tók því rólega á varamennabekknum í dag.  ose Manuel Alvarez Rey/Getty Images

Elías Rafn Ólafsson var hvíldur í bikarleik Midtjylland gegn Álaborg, sem endaði með 3-0 sigri Midtjylland á útivelli. 

Elías endurheimti nýlega sæti sitt sem aðalmarkmaður Midjtjylland eftir að hafa misst stöðuna til Jonas Lössl á síðasta tímabili. Elías hefur staðið sig vel í síðustu leikjum og stimplaði sig einnig vel inn með landsliðinu í leikjunum gegn Aserbaísjan og Frakklandi.

Hann var í byrjunarliðinu í deildinni um síðustu helgi en í bikarleiknum ákvað nýi þjálfarinn að leyfa Jonas Lössl að spreyta sig.

Það var ein af sex breytingum sem Mike Tullberg gerði. Hann tók við liðinu í landsleikjahlénu eftir að hafa náð góðum árangri í akademíu Borussia Dortmund. Thomas Thomasberg var þá látinn fara eftir rúm tvö ár í starfi og stuttu eftir að hafa stýrt liðinu inn í Evrópudeildina.

Áhugavert verður að fylgjast með hvort nýi þjálfarinn hrífist af Lössl og hann muni veita Elíasi samkeppni, eða bara spila bikarleikina.

Vitað er allavega að þó Elías hafi staðið vel í síðustu landsleikjum er sæti hans þar ekki tryggt. Hákon Rafn Valdimarsson bíður spenntur eftir tækifærum og stóð sig heldur betur í stykkinu með Brentford í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×