Veður

Grunn lægð yfir landinu í dag en suðlægir vindar á morgun

Lovísa Arnardóttir skrifar
Rigning verður víða á landinu.
Rigning verður víða á landinu. Vísir

Grunn lægð fer austur fyrir norðan land í dag. Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar fylgir henni ákveðin vestlæg átt og rigning. Búast má við dálítilli rigningu á Suður- og Suðausturlandi seinnipartinn. Hiti verður á bilinu fimm til tíu stig síðdegis.

Á morgun má búast við suðlægari vindum auk þess sem það styttir upp að mestu samkvæmt hugleiðingum. Þá léttir jafnvel til austan- og norðanlands og verður heldur hlýnandi veður.

Næstu daga er síðan útlit fyrir milda suðlæga átt með vætusömu veðri, einkum sunnan- og vestantil á landinu.

Á vef Vegagerðar kemur fram að víða um land er hálka eða hálkublettir. Hægt er að fylgjast með því á vef Vegagerðar og veðri á vef Veðurstofunnar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag (haustjafndægur):

Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og sums staðar smáskúrir, en léttir til á Norður- og Austurlandi. Hiti 5 til 13 stig. Vaxandi suðaustanátt vestantil um kvöldið.

Á þriðjudag:

Sunnan og suðaustan 8-15 og súld eða rigning, en talsverð rigning sunnanlands síðdegis. Hægari og þurrt að kalla um landið norðaustanvert, hiti 9 til 14 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Suðlæg átt, væta með köflum og milt veður.

Á föstudag:

Suðaustanátt og talsverð rigning, en úrkomuminna á Norðurlandi. Hiti 10 til 15 stig.

Á laugardag:

Sunnanátt og skúrir, en bjart veður norðaustanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×