Innlent

Um­ferðin færist inn á íbúðagötur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bjarmi Guðlaugsson býr í Smárahverfi í Kópavogi.
Bjarmi Guðlaugsson býr í Smárahverfi í Kópavogi. Vísir/Ívar Fannar

Kópavogsbúar óttast að vegaframkvæmdir verði til þess að miklar umferðartafir verði á svæðinu. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa og umferð þyngist á íbúðagötum í staðinn.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á gatnamótum og akreinafjölda hér í kringum Smáralindina í Kópavogi. Íbúi óttast að stórslys sé í uppsiglingu og telur að með þessu muni bílaumferð þrýstast inn í íbúðahverfi.

Búið er að fækka akreinum í báðar áttir á Smárahvammsvegi og beygjuakrein fjarlægð við gatnamótin við Fífuhvammsveg. Svipaðar breytingar voru gerðar við gatnamót Fífuhvammsvegar og Dalvegar þar sem tveir beygjuvasar voru fjarlægðir.

„Umferðarþungi, eða biðtími ökumanna, eykst um 27 prósent eftir að þessar framkvæmdir hafa átt sér stað. Ef litið er til spár Vegagerðarinnar, til næstu tíu ára, er gert ráð fyrir því að umferðarþunginn á höfuðborgarsvæðinu aukast um tuttugu prósent.  Þannig á næstu tíu árum mun þjónustustigið á þessum gatnamótum fara úr þjónustustigi C, sem er ásættanlegt, niður í þjónustuflokk E. Sem er óásættanlegt,“ segir Bjarmi Guðlaugsson, íbúi í Smárahverfi. 

Kópavogsbær hefur sagt tafirnar sem ökumenn upplifa vera vegna framkvæmdanna, en ástandið ætti að lagast. Bjarmi segir að ekkert samráð hafi verið haft við íbúa á svæðinu.

„Ég óttast, og fleiri íbúar sem búa í neðri hluta Smárahverfis, að umferðarþunginn muni færast inn í Dalsmára þar sem bæði er fyrir leikskóli og skóli. Ökumenn verða ekki lengi að átta sig á því að það sé fljótlegri leið,“ segir Bjarmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×