Íslenski boltinn

„Hef ekki verið nægi­lega góður í sumar“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jónatan Ingi skoraði tvö í kvöld og tryggði sigurinn eftir langa bið eftir marki.
Jónatan Ingi skoraði tvö í kvöld og tryggði sigurinn eftir langa bið eftir marki. Vísir/Anton Brink

Jónatan Ingi Jónsson réði úrslitum þegar Valur vann mikilvægan 3-2 sigur á Stjörnunni á Hlíðarenda í Bestu deild karla í kvöld. Hann skoraði sín fyrstu mörk frá því í ágúst og kveðst meðvitaður um að hafa verið slakur að undanförnu.

Jónatan skoraði tvö marka Vals, það fyrra kom liðinu 2-1 yfir í byrjun síðari hálfleiks og það síðara sigurmarkið þegar um stundarfjórðungur lifði leiks. Mörkin voru eftir kunnuglegri uppskrift hjá kantmanninum - uppskrift úr smiðju Hollendingsins Arjens Robben; skorið inn á völlinn frá hægri, leikið á mann og annan, áður en boltinn er settur innan fótar með vinstri fæti í markið.

Mörkin tvö voru hans fyrstu í deildinni síðan í ágúst og voru því kærkomin, líkt og sigurinn.

„Þetta var kærkomið. Þetta var kannski ekki besti leikurinn okkar og við ekki verið nógu góðir upp á síðkastið og við þurftum þrjú stig. Það var meiri fætingur í þessu og þetta datt okkar megin. Það var sætt,“ segir Jónatan.

Jónatan hefur sætt gagnrýni vegna skorts á framlagi að undanförnu, meðal annars í hlaðvarpinu Innkastið hjá Fótbolti.net þar sem hann var sagður hafa verið ósýnilegur um hríð. Það var því gott að stíflan brast.

„Já, hundrað prósent. Ég hef ekki verið nægilega góður í sumar. Jú, ég hef átt góða leiki en það hefur vantað mörk og stoðsendingar. Sérstaklega eftir að við missum Patrick, ég hefði átt að stíga meira upp, en ég hef viljað meira af þessu í sumar,“ segir sjálfsgagnrýninn Jónatan og vísar þar til Danans og markahróksins Patricks Pedersen sem er úr leik hjá Valsmönnum eftir að hafa meiðst í bikarúrslitaleik við Vestra í lok sumars.

En hefur þetta tekið á sálina?

„Ég byrjaði mjög vel en svo datt þetta niður og það fór aðeins í hausinn á mér. Svo kom ég mér í það að vinna leikina og ég pældi minna í að skora og leggja upp. Það tók ekki á sálina upp á síðkastið en þú vilt leggja þitt af mörkum, sérstaklega þegar þú missir mann eins og Patrick út,“ segir Jónatan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×