Lífið

Krúttlegustu á­heyrnar­prufur ársins

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Eigendur Donnu og Kráku voru meðal þeirra sem vonuðust til að standast próf Rauða krossins í dag.
Eigendur Donnu og Kráku voru meðal þeirra sem vonuðust til að standast próf Rauða krossins í dag. vísir/Lýður Valberg

Krúttlegustu áheyrnarprufur ársins fóru fram í dag þar sem mat var lagt á 20 hunda og eigendur þeirra sem vonast eftir því að taka þátt í hundavinaverkefni Rauða krossins. Það miðar að því að rjúfa félagslega einangrun. Fréttastofa hlaut þann heiður að fylgjast með umræddu mati.

Hér í húsakynnum Rauða krossins í Víkurhvarfi í Kópavogi fóru fram afar sérkennilegar áheyrnarprufur í dag þar sem var lagt mat á fjöldann allan af hundum eins og hana Kráku sem má berja augum í spilaranum hér að neðan fyrir ákveðið sjálfboðastarf eða svokallað hundavinaverkefni.

„Togum aðeins í skottið, bara til að kanna viðbrögðin“

Verkefnið gengur út á það að rjúfa félagslega einangrun með sérstökum heimsóknum þar sem hundur og sjálfboðaliði heimsækja fólk sem þarf á því að halda.

„Það svona ósjálfrátt skapar tengingu á milli fólks að hafa þessa fjórfættu dásemd með okkur og hún er sammála,“ sagði Þórdís Björg Björgvinsdóttir, matsmaður og hundasérfræðingur, og vísar til þess að Kráka geltir hátt og snjallt þegar minnst er á fjórfætta dásemd.

Hundurinn Kráka stóðst matið auðveldlega.vísir/Lýður Valberg

Ekki allir hundar henta vel í verkefnið og mat því mikilvægt. Fréttastofa fékk að fylgjast með einu slíku mati.

Nú er hundur að bíða hérna eftir að koma inn í mat. Byrjar matið bara um leið og hann gengur inn?

„Já í raun og veru. Frá fyrstu sekúndu. Er ég að fylgjast með því hvað hann er að gera og hvernig hann bregst við. Kráka. Gjörðu svo vel. Gangið í bæinn. Fyrstu viðbrögð virðast bara mjög góð. Hún labbar hérna sjálfsörugg inn. Eltir eiganda sinn og er ekki með neitt vesen.“

Þá hóf Þórdís að kanna hvernig Kráka bregst við áreiti þar sem aðstæður geta verið alls konar.

„Ef það eru smáhundar þá tökum við þá yfirleitt í fangið. Komum við aftur loppur. Togum aðeins í skottið. Bara til að kanna viðbrögðin. Því í raun og veru ef hún sýnir einhver viðbrögð að þá hentar hún ekki sem heimsóknahundur.“

Væri búið að koma í ljós ef Donna væri grimm

„Sem eigandi er ég bara mjög ánægð að sjá að hún þolir þetta bögg frá Þórdísi,“ sagði Sigríður Margrét Jónsdóttir, eigandi Kráku og annar matsmaður Rauða krossins.

Er það að einhverju leyti léttir að sjá að hundurinn er svona vel upp alinn?

„Vel upp alinn? Jú jú, það er mjög mikill léttir.“

Donna heitir í raun Madonna eftir söngkonunni góðkunnu en er ávallt kölluð Donna.vísir/Lýður Valberg

Kristjana Gunnarsdóttir, eigandi Donnu, vonast innilega til að geta látið gott af sér leiða í gegnum verkefnið.

Ertu vongóð um að hún standist matið?

„Já, ég vona það. Hún er rosalega blíð og barnabörnin mín eru búin að gera á henni nokkur svona próf. Ef hún væri eitthvað smá grimm þá væri það komið í ljós.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.