Erlent

Dómur þyngdur yfir nauðgara Pelicot

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Husamettin Dogan í dómsal í dag.
Husamettin Dogan í dómsal í dag. EPA

Refsing yfir karlmanni á fimmtugsaldri sem var ákærður fyrir að nauðga Gisele Pelicot meðan hún lá meðvitundarlaus hefur verið þyngd úr níu ára fangelsi í tíu ár.

Hinn franski Dominique Pelicot, fyrrverandi eiginmaður Gisele Pelicot, var dæmdur í tuttugu ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa á níu ára tímabili byrlað eiginkonu sinni ólyfjan, nauðgað og leyft tugum manna að nauðga henni og tekið ódæðin upp. 

Husamettin Dogan var meðal tæplega fimmtíu manna sem voru dæmdir sekir í málinu. Þeir voru dæmdir í þriggja til fimmtán ára fangelsi. Sautján þeirra höfðu hug á að áfrýja í málinu en hættu við, allir nema Dogan. 

Áfrýjunardómstóll í Nimes í Frakklandi kvað upp dóm í dag þar sem refsing yfir Dogan var þyngd, að því er kemur fram í umfjöllun Guardian.

Kviðdómur skipaður fimm karlmönnum og fjórum konum auk þriggja dómara dæmdi Dogan sekan fyrir að hafa nauðgað Pelicot í svefnherbergi hjónanna aðfaranótt 29. júní 2019. 

Við málsmeðferð var fjallað um netsamskipti Dogan og Dominique Pelicot á spjallþræði að nafni „Án hennar vitundar“. Á þræðinum óskaði sá síðarnefndi eftir mönnum til þess að nauðga eiginkonu sinni eftir að hann hafði byrlað henni ólyfjan. 

Sem fyrr segir var refsing yfir manninum þyngd um eitt ár, úr níu í tíu. Dominique Sie ríkissaksóknari í Frakklandi hafði þó barist fyrir því að refsing hans yrði þyngd um þrjú ár, þar sem hann „neitaði að taka nokkra ábyrgð“ á gjörðum sínum.


Tengdar fréttir

Gisèle Pelicot sæmd æðstu heiðursorðu Frakka

Gisèle Pelicot verður sæmd Heiðursorðunni, æðstu heiðursorðu Frakka, á mánudag auk 588 annarra. Pelicot öðlaðist heimsfrægð þegar hún bar vitni í réttarhöldum yfir manni sínum og tugum annarra manna vegna hópnauðgunar hennar.

Vaktin: Dominique Pelicot dæmdur í tuttugu ára fangelsi

Dominique Pelicot hefur verið sakfelldur í öllum ákæruliðum fyrir að nauðga eiginkonu sinni í mörg ár og byrla henni ólyfjan svo aðrir menn gætu nauðgað henni. Enginn af hinum mönnunum fimmtíu var sýknaður að fullu. Í einu tilfelli var einn sýknaður af ákæru um nauðgun en sakfelldur fyrir annarskonar kynferðisbrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×