Golf

Tiger Woods í enn eina bakaðgerðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods heldur upp á fimmtugsafmælið sitt undir lok ársins.
Tiger Woods heldur upp á fimmtugsafmælið sitt undir lok ársins. Getty/Michael Owens

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods segir frá því á miðlum sínum að hann gekkst undir sína sjöundu bakaðgerð á föstudag. Þetta er önnur stóra aðgerðin sem hann fer í á þessu ári.

Woods sagði í færslu á samfélagsmiðlum að hann hefði gengist undir aðgerðina í New York og bætti við að það hefði verið rétt ákvörðun fyrir heilsu hans og bakið sem hefur verið til vandræða.

Hann minntist ekki á hversu lengi þetta myndi halda honum frá golfinu, þótt óljóst væri hvort hann hefði ætlað sér að spila á Hero World Challenge-mótinu sínu á Bahamaeyjum eða PNC Championship-mótinu með syni sínum, Charlie. Bæði mótin fara fram í desember.

Woods hefur ekki spilað síðan hann tapaði í umspili á PNC Championship-mótinu á síðasta ári.

Þetta var önnur aðgerð hans á árinu því hann gekkst undir aðgerð í mars eftir að hafa slitið vinstri hásin. Þetta var líka önnur bakaðgerð hans á síðustu 13 mánuðum.

Woods sagðist hafa ráðfært sig við lækna og skurðlækna eftir að hafa fundið fyrir verkjum og skertri hreyfigetu í bakinu.

„Myndgreiningar leiddu í ljós að ég var með fallinn brjóskþófa og þrengsli í mænugöngum,“ skrifaði Woods í færslunni á laugardag. „Ég ákvað að láta skipta um brjóskþófann í gær og ég veit nú þegar að ég tók góða ákvörðun fyrir heilsu mína og bakið.“

Woods gekkst undir fyrstu af sjö bakaðgerðum sínum í apríl 2014, sem að lokum leiddi til þess að mjóbak hans var spelkað árið 2017. Ári síðar vann hann Tour Championship-mótið og náði svo í sinn fimmtánda risatitil og fimmta græna jakkann á Masters-mótinu 2019.

Hann lenti í bílslysi í febrúar 2021 þar sem hægri fótleggur hans og ökkli brotnuðu illa, en Woods hefur sagt að nærri hefði legið að taka þyrfti fótinn af. Woods sneri aftur ári síðar á Masters-mótið 2022.

Frá bílslysinu hefur Woods aðeins spilað fimmtán sinnum á síðustu fjórum árum, þar af fjórum sinnum á PNC Championship-mótinu, þar sem hann má nota golfbíl á 36 holu mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×