Fótbolti

Diljá fagnaði í lokin þrátt fyrir draumabyrjun hjá Sæ­dísi og Örnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diljá Ýr Zomers og félagar í Brann eru nánast búnar að tryggja sér meistaratitilinn í Noregi.
Diljá Ýr Zomers og félagar í Brann eru nánast búnar að tryggja sér meistaratitilinn í Noregi. Getty/ Jonathan Moscrop

Diljá Ýr Zomers og félagar í Brann fögnuðu sigri í dag í toppslagnum á móti Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni.

Vålerenga fékk algjöra draumabyrjun með því að komast í 2-0 eftir aðeins sex mínútna leik en Brann var komið yfir fyrir hálfleik.

Allar íslensku landsliðskonurnar byrjuðu á bekknum.

Sædís Rún Heiðarsdóttir kom inn á sem varamaður á 60. mínútu þegar staðan var orðin 4-2 fyrir Brann en Diljá kom inn á sem varamaður á 76. mínútu.

Arna Eiríksdóttir sat allan tímann á bekknum hjá Vålerenga. María Þórisdóttir kom inn á sem varamaður hjá Brann undir blálokin en hún gekk til liðs við Bergen félagið á dögunum.

Brann fór langleiðina með því að tryggja sér norska titilinn með þessum sigri en liðið er nú með sjö stiga forskot á Brann á toppnum. Það eru aðeins fjórar umferðir eftir og þar með bara tólf stig í pottinum.

Signe Gaupset, Nea Lehtola, Lauren Davidson og Amalie Eikeland skoruðu mörk Brann en Karina Sævik og Sara Lindbak Hørte komu Vålerenga í 2-0 í upphafi leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×