Handbolti

Eins í í­þróttum og jarð­göngum

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Pétursson stýrir íslenska landsliðinu í Lambhagahöllinni í kvöld, gegn Færeyjum í undankeppni EM.
Arnar Pétursson stýrir íslenska landsliðinu í Lambhagahöllinni í kvöld, gegn Færeyjum í undankeppni EM. vísir/Lýður

Íslenska kvennalandsliðið i handbolta byrjar undankeppni sína fyrir EM 2026 í kvöld með leik við Færeyjar í Úlfarsárdal. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari á von á hörkuleik og segir Íslendinga ekki hafa neina ástæðu til að tala niður til Færeyinga.

Ísland er jafnframt að undirbúa sig fyrir sitt þriðja stórmót í röð, HM sem hefst undir lok næsta mánaðar. Þar verða Færeyjar einnig með í fyrsta sinn, eftir að hafa spilað á EM í fyrsta sinn fyrir tæpu ári síðan.

„Við eigum von á hörkuleikjum. Ég held að á íþróttasviðinu, alveg eins og í jarðgangnagerð, þá getum við hætt að tala niður til Færeyinga. Þeir eru bara að gera frábæra hluti og það sjáum við bæði í handbolta og fótbolta,“ segir Arnar í viðtali við Val Pál Eiríksson sem sjá má í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Arnar með breyttan hóp í höndunum

„Í handboltanum [karlamegin] eiga þeir orðið einn besta leikmanninn í þýsku Bundesligunni og eru bara með virkilega gott lið þar og það sama er að gerast kvennamegin. Stelpur sem eru að spila í Danmörku eða í Meistaradeildinni og í Noregi. Þannig að við eigum bara von á mjög góðu færeysku liði hérna sem er búið að vera lengi saman og er bara með alvöru lið sem að við þurfum að eiga af virkilega góða frammistöðu á móti,“ segir Arnar.

Í viðtalinu hér að ofan ræðir hann einnig um breytingar sem orðið hafa á íslenska landsliðshópnum, mikilvægi þess að endurskipuleggja varnarleikinn út frá því og að leikmenn læri núna hratt.

Leikur Íslands og Færeyja hefst í Lambhagahöllinni klukkan 19:30 í kvöld og verður ítarlega fjallað um hann á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×