Formúla 1

Grunur um nauðgun á heimili Schumachers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimili Michaels Schumacher í Gland í Sviss.
Heimili Michaels Schumacher í Gland í Sviss. getty/Harold Cunningham

Ástralskur ökuþór hefur verið ákærður fyrir nauðgun á heimili Michaels Schumacher í Sviss. Brotaþoli er hjúkrunarfræðingur sem annaðist Schumacher.

Svissneska dagblaðið 24heures greinir frá ákærunni og atvikinu sem á að hafa átt sér stað í árslok 2019.

Brotaþoli bjó á heimili Schumachers og var í hópi þeirra sem sinntu ökuþórnum fyrrverandi sem varð fyrir alvarlegum heilaskaða í skíðaslysi 2013.

Sá ákærði er vinur sonar Schumachers, Micks. Hann er Ástrali á fertugsaldri sem hefur keppt í kappakstri og hefur reynt að komast að í Formúlu 1.

Hann er sakaður um að hafa brotið gegn konunni í tvígang á heimili Schumachers í nóvember 2019. Hún mundi ekki hvað hafði gerst en maðurinn á að hafa greint henni frá því hvað hann gerði í skilaboðum. Þau eru sönnunargögn í málinu.

Konan tilkynnti ekki um brotið fyrr en tveimur árum eftir að það átti sér stað. Þá var hún hætt að starfa fyrir Schumacher-fjölskylduna.

Réttarhöldin í málinu eiga að vera á miðvikudaginn en þeim gæti verið frestað. Enginn úr Schumacher-fjölskyldunni hefur verið yfirheyrður vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×