Leik lokið: ÍR-Tindastóll 67-113 | Stólarnir í stuði í Skógarselinu

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson var í góðum gír í Skógarselinu í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson var í góðum gír í Skógarselinu í kvöld. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Tindastóll hélt sigurgöngu sinni áfram í kvöld með 46 stiga sigri á ÍR-ingum í Skógarselinu, 113-67 í þriðju umferð Bónus-deildar karla í körfubolta.

Stólarnir hafa unnið fimm alla leiki tímabilsins til þessa, þrjá í deildinni og tvo í Evrópukeppninni og líta afar vel út.

Heimamenn í ÍR unnu Njarðvík í síðustu umferð en áttu enga möguleika í kvöld. Tindastóll var 28-25 yfir eftir fyrsta leikhluta en var síðan komið með átján stiga forskot í hálfleik, 56-38.

Sigtryggur Arnar Björnsson kom með 22 stig inn af bekknum hjá Stólunum en hann var einn af sex í liðinu sem skoruðu ellefu stig eða meira.

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn en ÍR-ingar fóru vel af stað og settu niður þrjár 3 stiga körfur í röð. Tindastóll var hins vegar aldrei langt undan en staðan var 25-28 eftir fyrsta leikhluta.

ÍR-ingar náðu engu alvöru jafnvægi þegar fór að líða á leikinn. Tindastóll var 18 stigum yfir í hálfleik, en þeir náðu að miklu leyti að stöðva einn besta leikmann deildarinnar, Jacob Falko sem var einungis með sjö stig í kvöld.

ÍR-ingar sáu svo aldrei til sólar því Tindastóll sigraði leikinn í kvöld með 46 stigum.

Atvik leiksins

Strax eftir að leikhlé ÍR-inga lauk í öðrum leikhluta stal Ragnar Ágústsson boltanum og komst upp allan völlinn og tróð boltanum í körfuna. Þetta var svona á þeim tíma þegar Tindastóll var gjörsamlega að taka yfir leikinn og sýndi sjálfstraustið í þessu liði.

Stjörnur og skúrkar

Sigtryggur Arnar Björnsson sem byrjaði á bekknum í kvöld var með 22 stig. Ragnar Ágústsson var með 20 stig og Ivan Gavrilovic var nálægt tvennunni í kvöld en hann var með 16 stig og 9 fráköst.

Jacob Falko sem hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar og sennilega besti leikmaður ÍR var með 7 stig í leiknum og tapaði boltanum fimm sinnum. Hann var reyndar stoðsendingahæstur í ÍR liðinu.

Slæmur dagur hjá Jacob Falko í kvöld.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Stemning og umgjörð

Góð stemning í Breiðholtinu og mikill fjöldi áhorfenda. Það heyrðist vel í stuðningsmönnum ÍR-inga í fyrri hálfleik en nánast ekkert í þeim seinni.

„Stemningin í hópnum er skemmtileg“

Arnar Guðjónsson, þjálfari Tindastóls.visir/Pawel Cieslikiewicz

„Mér fannst ferðin út til Bratislava, þar sem við stoppum í Munich, mér fannst það gera mikið fyrir liðsheildina. Nýjir menn sem komu vel út úr skelinni og það er oft góð leið þegar þú ert að reyna að búa til liðsanda að vera dálítið saman. Stemningin í hópnum er skemmtileg, það er mikið af grínistum og það er mikið gaman.“

Tindastóll gerði vel varnarlega og náði besti leikmaður ÍR, Jacob Falko, sér aldrei á strik í þessum leik. Þjálfari Tindastóls, Arnar Guðjónsson, var þó ekki beint sammála því að liðið hafi náð að loka algjörlega á hann.

„Hann bjó til helling af opnum skotum og þeir skutu mjög vel hérna í byrjun úr skotum sem hann bjó til. Hann náði ekki að skora mikið en hann bjó til fyrir allt og alla í kringum sig.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira