Viðskipti innlent

Flug­um­ferðar­stjórar verði að sætta sig við sömu launa­hækkanir og aðrir

Lovísa Arnardóttir og Smári Jökull Jónsson skrifa
Sigríður Margrét segir alveg skýrt að flugumferðarstjórar fái ekki meira en aðrir.
Sigríður Margrét segir alveg skýrt að flugumferðarstjórar fái ekki meira en aðrir. Vísir/Einar

Framkvæmdastjóri SA hvetur flugumferðarstjóra til að koma aftur að samningaborðinu og aflýsa verkfalli. Það sé alveg skýrt að launahækkanir þeirra verði ekki umfram hækkanir annarra stétta. Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, segir nauðsynlegt að fundin verði ásættanleg leið fyrir báða aðila. Verkfall að óbreyttu klukkan 22 í kvöld. Ríkissáttasemjari segir málið flókið og í hnút.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í fréttum í gær að það væri ótækt að svo fámennur hópur eins og flugumferðarstjórar gæti lokað landinu. Arnar segist ekki vita hvernig flugumferðarstjórar ættu annars að bregðast við í kjaradeilu. Þeir ætli í þessi skæruverkföll en annar kostur væri allsherjarverkfall.

„Ég veit ekki hvort það mynd henta Icelandair og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum eitthvað betur. Við erum að reyna að stilla þetta af hóflega til að byrja með og sjá hvort maður nær eitthvað að hreyfa við þessum málum.“

Arnar segist vongóður um að deilan leysist í þessari viku. Fyrsta verkfallið hefst klukkan tíu í kvöld og varir í fimm tíma. Næsta verkfall er boðað aðfaranótt þriðjudags og fleiri í lok næstu viku, alls fimm verkföll.

Viðræður hafa staðið frá því í apríl. Arnar segir ekki margar hugmyndir hafa komið frá Samtökum atvinnulífsins í þessar viðræður.

„Við upplifum það þannig eins og SA mæti með fyrirframákveðna niðurstöðu að borðinu þegar þetta byrjar og þar skuli þetta enda. Þrátt fyrir að við séum með okkar eigin samningsumboð og gerum okkar eigin kjarasamninga. Það eru ekki aðrir sem semja fyrir okkur, það eru við sjálfir.“

Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóraVísir/Vilhelm

Hann segir þungt hljóð í félagsmönnum. Þeir séu orðnir þreyttir á löngum kjaraviðræðum en þær hafi nánast staðið sleitulaust frá því að félagið fór síðast í aðgerðir í desember árið 2023. Hann segir mikla þreytu og að hann hafi allt frá því í vor upplifað töluverða pressu að fara í verkfallsaðgerðir.

„Sem er okkur ekkert sérstaklega léttvægt.“

Hálaunastétt í skæruverkföllum

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var til viðtals í kvöldfréttum Sýnar um verkfallið og samningaviðræðurnar. Hún segir flugumferðarstjóra búna að boða fimm skæruverkföll sem sé ætlað að valda sem mestu tjóni með sem minnstum tilkostnaði fyrir félagið.

„Frá okkar bæjardyrum séð skiptir okkur öllu máli að við séum ekki að semja núna við stétt sem hefur, í samanburði við aðrar stéttir sem við erum að semja við, mun hærri laun umfram þá stefnu sem búið er að semja um á almennum vinnumarkaði.“

Sigríður Margrét segir ríkan samningsvilja hjá SA en að staðan sé sú að það sé með skæruverkföllum verið að loka flugumferða til og frá og innan landsins.

„Þetta er hálaunastétt sem er í skæruverkföllum og það kemur bara ekki til greina að greina að við semjum við þessa stétt umfram þær hækkanir sem aðrir hafa fengið.“

Hún segir að ef það væri samningsvilji hjá flugumferðarstjórum væri búið að semja.

„Þetta er alveg gríðarlegt tjón sem svona skæruverkföll valda. Til viðbótar við bæði það tjón sem flugfarþegar verða fyrir, ferðaþjónustan verður fyrir, þá er þetta líka tjón fyrir ásýnd Íslands til ferðamanna,“ segir hún og að það hafi verulega neikvæð áhrif.

Hvetur þá til að aflýsa verkfalli

Hún segir boltann nú hjá flugumferðarstjórum. Þeir geti aflýst verkfalli og sest aftur við samningaborðið. Það sé þó alveg á hreinu að launahækkanir til þeirra verði á sömu nótum og til annarra stétta sem SA hefur þegar samið við.

SA verði í sínum samningum að hugsa um heild á markaði. Það sé launastefna og það sé mikilvægt að fylgja henni.

„Ég hvet flugumferðarstjóra til að aflýsa þessum skæruverkföllum sem þeir eru búnir að boða, með tilheyrandi tilkostnaði, og koma aftur að samningaborðinu og sætta sig við að þeirra launahækkanir verða í samræmi við launahækkanir annarra í þessu samfélagi.“


Tengdar fréttir

„Málið er fast“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segist opinn fyrir öllum hugmyndum sem væru til þess að leysa deilu flugumferðastjóra og Samtaka atvinnulífsins. Hann segir flókið hvert næsta skref eigi að vera.

Eitt flug á á­ætlun á verkfallstíma

Öllum flugferðum sem áttu að fara um Keflavíkurflugvöll á verkfallstíma flugumferðarstjóra hefur verið flýtt, seinkað eða aflýst, nema einu. Verkfallið hefst að öllu óbreyttu klukkan tíu í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×