Erlent

Fyrsta konan til að verða for­sætis­ráðherra Japans

Atli Ísleifsson skrifar
Sanae Takaichi tilheyrir harðlínuarmi flokksins en hún var náinn bandamaður fyrrverandi forsætisráðherrans Shinzo Abe.
Sanae Takaichi tilheyrir harðlínuarmi flokksins en hún var náinn bandamaður fyrrverandi forsætisráðherrans Shinzo Abe. AP

Japanska þingið samþykkti í dag hina 64 ára Sanae Takaichi sem nýjan forsætisráðherra landsins, en hún er fyrsta konan til að gegna embættinu.

Takaichi er íhaldsmaður og þekkt sem „Járnfrú Japans“, enda segist hún sjálf mikill aðdáandi Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem var einmitt þekkt sem Járnfrúin.

Hún mun formlega taka við embættinu þegar hún gengur á fund Japanskeisara síðar í dag.

Þetta er þriðja tilraun hennar til að verða leiðtogi landsins og fjórði forsætisráðherra Japans á fimm árum. Hún var kjörin formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins fyrr í mánuðinum, en flokkurinn hefur stýrt Japan nær óslitið frá stofnun hans árið 1955, ef frá er talið 1993 til 1996 og svo aftur frá 2009 til 2012.

Takaichi tilheyrir harðlínuarmi flokksins en hún var náinn bandamaður fyrrverandi forsætisráðherrans Shinzo Abe. Hún hefur setið á þingi frá 1993 til 2003 og aftur frá 2005, auk þess að gegna fjölda ráðherraembætta í stjórnartíð forsætisráðherranna Shinzo Abe og Fumio Kishida.

Takaichi bíður þess nú að takast á við fjölda úrlausnarefna sem Japanir glíma við, þar með talið efnahagsmálin, brösótt samskipti Japans og Bandaríkjanna og að sameina flokkinn sem hefur þurft að glíma við fjölda hneykslismála og innri deilna á síðustu árum.

Takaichi var kjörin formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins eftir að Shigeru Ishiba tilkynnti um afsögn sína á dögunum. Hann hafði gegnt formennsku og forsætisráðherraembættinu í rúmt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×