Fótbolti

„Eins og Ís­land en bara enn betra“

Sindri Sverrisson skrifar
Lars Lagerbäck hreifst eins og margir aðrir af kraftaverki smábæjarliðs Mjällby.
Lars Lagerbäck hreifst eins og margir aðrir af kraftaverki smábæjarliðs Mjällby. Getty/Michael Campanella

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, var á meðal þeirra sem að sendu Mjällby-fólki hamingjuóskir eftir að liðið varð sænskur meistari í fyrsta sinn. Skilaboð sem glöddu menn sérstaklega mikið.

Jacob Lennartsson, framkvæmdastjóri Mjällby, sagði skilaboðin frá Lagerbäck standa upp úr af þeim fjölmörgu sem borist hefðu eftir að liðið tryggði sér meistaratitilinn á mánudagskvöld.

Íbúar Mjällby eru innan við 1.500 talsins svo að um algjöran smábæ er að ræða í Svíþjóð. Samt náði liðið að verða það besta í landinu og þetta minnti Lagerbäck greinilega á ævintýrið með íslenska landsliðinu, sem vakti heimsathygli með því að komast í 8-liða úrslit á EM undir stjórn þeirra Heimis Hallgrímssonar.

Óvænt skilaboð frá Lagerbäck

„Það hafa komið mjög margar hamingjuóskir og þau sem gleðja mest eru auðvitað frá öllum sem hafa verið stuðningsmenn Mjällby allt sitt líf. En Lars Lagerbäck sendi reyndar líka hamingjuóskir. Það var svolítið óvænt og extra gaman,“ sagði Lennartsson við Fotbollskanalen.

Hann var þá spurður hvort að Lagerbäck, sem er einnig fyrrverandi landsliðsþjálfari Svía, væri nokkuð stuðningsmaður Mjällby:

„Það vitum við nú ekki. En hann kom með líkinguna að þetta væri „eins og Ísland en bara enn betra“, frá því að hann var þar. Það var frábært. Skemmtilegt. Frábær landsliðsþjálfari sem hefur afrekað margt, svo það var sérstaklega ánægjulegt [að fá þessi skilaboð],“ sagði Lennartsson.

Annar fyrrverandi landsliðsþjálfari Svía, Janne Andersson, hafði einnig sent skilaboð sem glöddu þjálfara Mjällby en Lennartsson sagði: „Þó að það væri frábært að fá hamingjuóskir frá Janne þá er enn stærra að fá þær frá Lagerbäck. Hann er efstur í SMS-deildinni núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×