Íslenski boltinn

„Ég þarf bara að láta verkin tala“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ólafur Ingi hefur aldrei áður verið aðalþjálfari félagsliðs.
Ólafur Ingi hefur aldrei áður verið aðalþjálfari félagsliðs. vísir / ívar

Ólafur Ingi Skúlason hefur ekki áhyggjur af sínu reynsluleysi sem félagsliðaþjálfari og ætlar að láta verkin tala í nýju starfi hjá Breiðabliki.

Síðustu sólarhringar hafa verið hektískir hjá nýjum þjálfara Breiðabliks sem tók við starfinu í fyrradag og gerði tveggja ára samning.

Ólafur Ingi hefur undanfarin fimm ár starfað sem landsliðsþjálfari yngri landsliða Íslands en stígur nú skrefið yfir í félagsliðafótbolta, sem er frábrugðinn landsliðsumhverfinu að mörgu leiti.

„Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því, þetta er risastórt starf og það er auðvelt að setja punkt á það að ég er ekki með mikla reynslu úr félagsliðafótbolta, en ég hef töluverða reynslu úr fótbolta og tel mig vita ágætlega út hvað þetta gengur. Ég þarf bara að láta verkin tala, það er það eina sem gildir í þessu.“

Frábærar móttökur frá Blikum

Hann tekur við starfinu af Halldóri Árnasyni, sem var nokkuð óvænt látinn fara í gær, ákvörðunin var tekin á undarlegum tímapunkti og stjórn Breiðabliks hefur hlotið gagnrýni fyrir en tekur mið af gengi liðsins undanfarið, sem hefur ekki verið gott.

Er þetta erfitt starfsumhverfi að stíga inn í?

„Alls ekki. Þetta er í fyrsta skipti svosem sem maður er í þessari aðstöðu en félagið er búið að taka frábærlega á móti mér og þetta er reynslumikill og góður hópur.“

Engar stórar breytingar á stílnum

Ólafur segist ætlar að láta verkin tala og verður að gera það því Breiðablik á mikilvæga leiki framundan í vikunni, fyrst er Evrópuleikur gegn finnska liðinu KuPS á fimmtudag, og síðan spilar Breiðablik á sunnudag, úrslitaleik við Stjörnuna upp á þriðja sæti Bestu deildarinnar.

„Þetta er bara mjög skemmtilegt verkefni og gaman að byrja hratt, það er bara kostur. Ég er að taka við mjög öflugu og góðu búi, það hefur verið mjög vel staðið að hlutunum hér síðustu ár...

...Ég sé ekki fram á það að hér verði einhver kollvörpun í leikstíl eða neinu slíku. Auðvitað kemur maður með sínar hugmyndir, sem vonandi geta bætt leik liðsins, en Breiðablik mun áfram spila sóknarþenkjandi, tempó fótbolta. Það hefur verið þeirra einkenni undanfarin ár og því verður ekkert breytt.“

Rætt var við nýjan þjálfara Breiðabliks í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi. Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Hans fyrsti leikur við stjórnvölinn, gegn finnska liðinu KuPS, verður svo í beinni útsendingu á Sýn Sport annað kvöld, fimmtudag klukkan 16:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×