Fótbolti

KA-strákarnir fara út með tvö mörk í mínus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-strákarnir náðu ekki hagstæðum úrslitum á móti Grikkjunum í dag.
KA-strákarnir náðu ekki hagstæðum úrslitum á móti Grikkjunum í dag. KA-Sport

KA tapaði 2-0 á móti gríska félaginu PAOK í Boganum í kvöld í fyrri leik liðanna í annarri umferð unglingaliðakeppni UEFA, UEFA Youth League.

Þarna spila 2. flokkar félaganna eða lið skipuð leikmönnum nítján ára og yngri.

KA sló út FS Jelgava frá Lettlandi í síðustu umferð en þurfa nú að ná frábærum úrslitum úti í Grikklandi til að halda Evrópuævintýri sínu á lífi.

Ekki ómögulegt en mjög krefjandi. KA kom til baka í útileiknum í Lettlandi þar sem þeir lentu 2-0 undir en tókst síðan að jafna metin.

Yfirburðir gríska liðsins voru hins vegar miklir í þessum leik, voru um tíma 17-2 yfir í skotum og voru líka miklu meira með boltann.

Leikurinn átti að fara fram á Greifavellinum en var færður inn í Bogann vegna mikillar snjókomu fyrir norðan. Spurning hvort það hefði ekki kælt Grikkina niður að láta þá bara spila úti í kuldanum.

Konstantinos Toursounidis kom PAOK í 1-0 strax á sjöundu mínútu en annað markið kom á 52. mínútu var sjálfsmark hjá KA-mönnum.

KA-menn enduðu manni fleiri inn á vellinum eftir að gríska liðið fékk rautt spjald á lokamínútum leiksins.  Dimitrios Bataoulas fékk þá sitt annað gula spjald og verður því í banni í seinni leiknum. 

KA sótti undir lokin en tókst því miður ekki að minnka muninn. 

KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×