Íslenski boltinn

„Þetta verður bara veisla fyrir vestan“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Óskar Hrafn, þjálfari KR, segir spennuna meiri en stressið fyrir leik dagsins.
Óskar Hrafn, þjálfari KR, segir spennuna meiri en stressið fyrir leik dagsins. Vísir/Anton Brink

KR og Vestri berjast fyrir lífi sínu í Bestu deild karla í fótbolta. Þau leika hreinan úrslitaleik í lokaumferð deildarinnar á Ísafirði í dag. KR hefur aðeins fallið einu sinni í 126 ára sögu félagsins og mikið undir hjá Vesturbæjarstórveldinu.

KR-ingar náðu æfingu á heimavelli sínum í gær áður en þeir flugu vestur á Ísafjörð seinni part dags. Andinn var nokkuð léttur á æfingunni, þrátt fyrir þunga stöðu á liðinu undanfarið. KR vann ÍBV í síðasta leik sem hélt vonum liðsins á lífi og skapaði úrslitaleikinn sem fram undan er gegn Vestra í dag.

KR hefur fallið einu sinni í sögunni, árið 1977, fyrir 48 árum síðan. Þetta er því ekki staða sem aðstandendur félagsins eru vanir.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari liðsins, segir spennuna meiri en stressið fyrir leik dagsins.

„Ég held það sé aðallega bara tilhlökkun. Ég upplifi ekki mikið stress eða áhyggjur. Ég held það séu aðrir sem hafi meiri áhyggjur en leikmannahópurinn og þjálfarateymið. Þetta verður bara veisla fyrir vestan,“ segir Óskar Hrafn.

Öll þrjú geta bjargað sér

Staðan í deildinni er þannig að liðið sem vinnur leik Vestra eða KR heldur sér uppi en Afturelding sem er á botninum er þó ekki fallin.

Vinni KR verða Vesturbæingar með 31 stig og skilja Vestra og Aftureldingu eftir í fallsæti, sama hvernig fer hjá Mosfellingum. Vinni Vestri leikinn falla KR og Afturelding, einnig sama hvernig fer hjá þeim síðarnefndu.

Hér má sjá möguleikana í stöðunni. Eini möguleiki Aftureldingar til að halda sér uppi er með sigri á ÍA og að treysta samtímis á jafntefli Vestra og KR.Vísir/Hjalti

Eini möguleiki Aftureldingar er því ef Vestri og KR skilja jöfn og Mosfellingar vinni jafnframt sinn leik við ÍA.

Þá falla Vestri og KR. Það er því í þeirra höndum, KR-inga og Vestanmanna, að halda sér uppi.

Handbremsan af og keyrt af stað

Hvernig er nálgunin? Mun andlegi þátturinn ráða úrslitum?

„Andlegi þátturinn mun hafa mikið að segja. Ef spennustigið verður of hátt eru menn yfirleitt ekki besta útgáfan af sjálfum sér. Nálgunin okkar er sú að við höfum engu að tapa en öllu að vinna. Það er svo sem ekkert ólíkt því sem við höfum gert í alla leiki í sumar. Það er handbremsan af og keyrt frá fyrstu mínútu á Vestramenn,“

„Leikurinn er mikilvægur en það mikilvægasta fyrir okkur er frammistaðan. Af því að þegar frammistaðan hefur verið góð, kannski ekki alltaf í sumar, en þá er í það minnsta líklegra að úrslitin fylgi með,“ segir Óskar Hrafn.

Töluvert fleira kemur fram í ítarlegu viðtali við Óskar Hrafn sem má sjá í heild í spilaranum að neðan.

Klippa: Óskar Hrafn ræðir úrslitaleikinn við Vestra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×