Sport

„Sagan hefur sýnt það að ég er góður að þjálfa unga og efni­lega leik­menn“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Heimir fer í Árbæinn.
Heimir fer í Árbæinn. vísir/sigurjon

Heimur Guðjónsson skrifaði undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Fylkis seinnipartinn í gær. Hann tekur við liðinu af Arnari Grétarssyni.

Heimar stýrði FH í síðasta sinn á laugardaginn og var kvaddur af félaginu með pompi og prakt. Hann stýrði FH frá árinu 2022. Áður hafði hann verið aðalþjálfari félagsins á árunum 2008-2017. En núna tekur við nýr kafli á þjálfaraferli Heimis, að stýra liði í næstefstu deild.

„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Ég lít svo á að það sé mikill efniviður þarna og mig langaði svolítið að prófa eitthvað nýtt og fara byggja upp,“ segir Heimir í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

Mitt að finna út úr því

„Fylkir er stór klúbbur og á að mínu mati að vera í efstu deild og það eru miklir möguleikar þarna.“

Fylkir byrjaði síðasta tímabil í Lengjudeildinni hræðilega og var lengi vel í fallbaráttu. Margir höfðu spáð því að liðið færi rakleitt upp í efstu deild eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni á síðasta ári.

„Það voru þjálfarabreytingar á miðju tímabili. Liðið spilaði undir væntingum miðað við mannskap í Lengjudeildinni. Nú er það mitt að finna út úr því af hverju þetta gekk ekki nógu vel og laga það. Ég hef mjög gaman af því að þjálfa, og elska það. Ég hugsaði að það væri gott að fara í lið sem er með unga og efnilega leikmenn. Sagan hefur sýnt það að ég er góður að þjálfa unga og efnilega leikmenn og gera þá betri.“

FH ákvað að endursemja ekki við Heimi eftir síðasta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×