Fótbolti

Sýknaður í al­var­legu ofbeldismáli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eron Gojani þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður HamKam í norsku úrvalsdeildinni.
Eron Gojani þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður HamKam í norsku úrvalsdeildinni. @HamKamFotball

Eron Gojani, leikmaður Íslendingaliðsins HamKam í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta, var ákærður fyrir aðild að líkamsárás fyrr á þessu ári. Nú hefur átján ára gamli drengurinn verið sýknaður.

Lögmaður Gojani staðfesti fréttirnar við TV2.

Sextán ára drengur var stunginn í maí en upp kom um tengsl Gojani við árásina eftir að hann sendi félaga sínum skilaboð á Snapchat. Þar á Gojani að hafa sagst hafa dreymt um að drepa fórnarlambið og þá eins sársakafullt og hægt væri.

Gojani var ákærður ásamt fimm öðrum. Hann hélt því fram að ekki ætti að taka orð hans bókstaflega þar sem þetta væri bara götumál og ætti ekki að taka alvarlega. Gojani segist ekki umgangast ofbeldismenn en sagðist taka ábyrgð á gerðum sínum.

Dómurinn er ítarlegur og góður að mati Gojani.

„Hann er feginn og ánægður með að honum sé loksins trúað. Við sem vörðum hann höfum verið skýr allan tímann um að sýknudómur hafi verið það eina rétta í stöðunni,“ sagði Mads Hasle frá lögfræðistöðinni Hasle við sjónvarpsstöðina.

Í september bárust fréttir af því að leikmaður úrvalsdeildarinnar hefði verið ákærður í alvarlegu ofbeldismáli.

Gojani kom fram fyrr í þessum mánuði í staðarblaðinu Hamar Arbeiderblad, þar sem hann staðfesti að hann væri sá sem var ákærður, og baðst afsökunar á því sem hafði gerst.

„Það var aldrei ætlunin að eitthvað slíkt gerðist. Ég biðst afsökunar,“ sagði Gojani þá við HA.

Eron Gojani er miðjumaður og liðfélagi Viðars Ara Jónssonar hjá HamKam. Hann hefur spilað þrjá deildarleiki á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×