Innlent

Reikna með flug­hálum vegum

Atli Ísleifsson skrifar
Reiknað er með að hláni strax í kvöld suðaustanlands.
Reiknað er með að hláni strax í kvöld suðaustanlands. Vísir/Vilhelm

Það mun hlýna í nótt og á morgun og um tíma verða margir vegir flughálir þegar blotnar í þjöppuðum snjónum. Reiknað er með að hláni strax í kvöld suðaustanlands.

Í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir að vakin sé athygli á spá um sviptivinda í Öræfum frá því í nótt og fram á miðjan dag á morgun. Má reikna með hviðum allt að 40 til 45 metra á sekúndu.

Veðurstofan reiknar með dálitlum éljagangi á norðurhluta landsins fram undir hádegi í dag og samhliða því megi búast má við lélegu skyggni og erfiðum aksturskilyrðum, einkum á fjallvegum, á Norðausturlandi. Annars er hægari vindur í öðrum landshlutum, en snjókoma með köflum á Suðaustur- og Austurlandi. Þurrt verður að mestu suðvestantil.

„Í kvöld nálgast djúp lægð landið úr Suðri sem veldur norðaustlægum áttum á öllu landinu. Snemma í fyrramálið má búast við allt að 28 m/s á Suðausturlandi, en annars 13-20. Dregur úr vindi suðaustantil síðdegis á morgun, en allt að 25 m/s norðvestan og vestantil annað kvöld.

Lægðinni fylgir fremur hlýtt loft og því má búast við talsvert mikillri úrkomu víða um land, fyrst sem snjókoma eða slydda en síðar er útlit fyrir rigningu, einkum sunnan- og austantil. Þar sem mikill snjór hefur fallið síðustu daga má búast við töluverðri hláku og er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×