Körfubolti

Ís­lands­meistararnir frá því fyrir sex­tíu árum heiðurs­gestir í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir birti þessa mynd af Íslandsmeisturum KR eftir úrslitaleikinn.
Vísir birti þessa mynd af Íslandsmeisturum KR eftir úrslitaleikinn. Tímarit.is/Vísir

KR tekur á móti ÍA í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld en félögin eru að mætast í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni í meira en 25 ár.

Jakob Örn Sigurðarson þjálfari KR í dag var sautján ára nýliði í KR-liðinu þegar liðin mættust síðast á Akranesi í efstu deild í janúar árið 2000.  KR vann leikinn 71-59 og Jakob var með 2 stig og 3 fráköst. 

KR-ingar ætla að tileinka leikinn í kvöld einu af fjölmörgum meistaraliðum félagsins í gegnum tíðina.

Heiðursgestir leiksins í kvöld eru Íslandsmeistarar karla frá árinu 1965.

Í ár eru liðin sextíu ár frá þessum fyrsta Íslandsmeistaratitli KR í efstu deild í körfubolta og markaði hann algjör tímamót í ungri sögu deildarinnar því þar með hófst fjórtán ára sigurganga sem skilaði sjö Íslandsmeistaratitlum og sjö bikarmeistaratitlum til og með vorinu 1979.

Vorið 1965 endaði þetta KR-lið sex ára einokun ÍR-inga á Íslandsmeistaratitlinum en úrslitin réðust í úrslitaleik um titilinn eftir að liðin enduðu jöfn með sjö sigra og eitt tap.

Úrslitaleikurinn fór fram í Hálogalandi og þar höfðu KR-ingar betur, 64-54, eftir að hafa verið aðeins einu stigi yfir, 54-53, þegar ein mínúta var eftir. Stærstu stjörnur liðsins voru þeir Einar Bollason, Kolbeinn Pálsson og Gunnar Gunnarsson en bæði Guttormur Ólafsson og Hjörtur Hansson fengu líka hrós í blöðunum fyrir frammistöðu sína í úrslitaleiknum.

Einar Bollason skoraði 29 stig í úrslitaleiknum, Guttormur var með 13 stig, Gunnar skoraði 8 stig, Kristinn Már Stefánsson var með 6 stig eins og Hjörtur og Kolbeinn Pálsson skoraði 2 stig.

Aðrir í liðinu voru þeir Jón Otti Ólafsson, Þorvaldur G. Blöndal og Skúli Ísleifsson.

Þjálfari KR-liðsins í lokaleikjum tímabilsins var Bandaríkjamaðurinn Phil Bensing en hann starfaði þá sem tæknifræðingur hjá bandaríska flughernum á Keflavíkurflugvelli. Bensing var lærður körfuboltaþjálfari og þjálfaði mikið innan bandaríska hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×