Körfubolti

„Búnir að sýna hvað við getum verið lé­legir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson er þjálfari Vals.
Finnur Freyr Stefánsson er þjálfari Vals. Vísir / Guðmundur

„Það er voða lítið hægt að segja. Þetta var bara arfaslök frammistaða af okkar hálfu,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, eftir stórt tap liðsins gegn Grindvíkingum í kvöld.

Valsmenn sáu aldrei til sólar er liðið fékk Grindavík í heimsókn í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld og máttu að lokum þola 35 stiga tap, 55-90.

„Grindavík er með hörkulið og mjög góðar viðbætur sem komu í liðið frá því í fyrra. En við létum þá líta helvíti vel út varnarlega með lélegum sóknarleik og heimskulegum ákvörðunum.“

Sóknarleikur Vals var hvorki fugl né fiskur í kvöld og það var í raun lítið sem gekk upp hjá liðinu. Valsmenn skoruðu aðeins úr einu af fyrstu átta vítaskotum sínum og tapaðir boltar voru 26 talsins hjá liðinu.

„Þetta var bara arfaslök frammistaða frá a-ö og við byrjum þennan leik illa. Við erum andlausir og förum að væla og þeir bara ganga á lagið. Við lendum bara í einhverri holu sem við komumst aldrei upp úr. Þetta var slök frammistaða og ekki í takt við það sem við ætluðum að gera.“

Finnur segir þó að þessi frammistaða eigi ekki eftir að sitja lengi í liðinu.

„Við þurfum bara að æfa vel og mæta í næsta leik. Þetta er bara sama tuggan hvort sem þú vinnur eða tapar. Við verðum að skilja við þennan leik og læra af honum. Nú erum við búnir að sýna hvað við getum verið lélegir, en nú verðum við bara að mæta í næsta leik af meiri krafti og læra af þessu. Við getum ekki breytt úrslitum þessa leiks, en ég ætla að vona að frammistaðan í næsta leik verði betri,“ sagði Finnur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×