ÍR - Ár­mann 96-83 | Ný­liðarnir enn í leit að fyrsta sigrinum

Pálmi Þórsson skrifar
Ármenningar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Bónus-deildinni en veittu ÍR góða keppni í kvöld.
Ármenningar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Bónus-deildinni en veittu ÍR góða keppni í kvöld. vísir/Anton

Ármenningar komu í heimsókn í Breiðholtið og unnu þar ÍR, 96-83, í Bónus-deild karla í körfubolta. Ármenningar voru í leit að sínum fyrsta sigri á meðan ÍR-ingar lögðu Stjörnuna í síðustu umferð.

Leikurinn fór vel af stað og litu gestirnir mjög vel út og spiluðu glimrandi vel meðan það var eins og það væri smá ryð í heimamönnum. Staðan eftir 1. leikhluta var því 19-25 fyrir gestina sem spiluðu með miklu sjálfstrausti og var ekki að sjá að þeir væru án sigurs í deildinni.

Fremstur í flokki fór hann Bragi Guðmundsson sem skoraði hverja körfuna áreynslulaust.

Í 2. leikhluta settu ÍR-ingar í annan gír en voru samt ennþá skrefinu á eftir. Ármenningar voru einhvern vegin tilbúnir með svör við flestu. Ef það kom þristur öðru megin þá kom þristur hinu megin og þannig spilaðist 2. leikhlutinn sem endaði 47-50 fyrir Ármann.

Í þriðja leikhluta þá féll þetta eins og spilaborg hjá Ármenningum. ÍR-ingar komu út í seinni hálfleik búnir að setja í fjórða eða fimmta gír og keyrðu bara yfir gestina úr Laugardalnum. Fóru að pressa sem gerði Ármanni mjög erfitt fyrir og uppskáru auðveldar körfur hinu megin. 

Þegar Ármenningar komust síðan upp völlinn þá var eins og sjálfstraustið væri farið. ÍR-ingar komust í 10 stiga forskot og það var munurinn restina af leiknum en lokatölur 96-83. Ármenningar geta verið svekktir að hafa ekki stolið sigrinum í kvöld en vel gert hjá ÍR að loka þessum.

Atvik leiksins

Atvik leiksins er þessi 3. leikhluti í heild sinni en ÍR-ingar unnu hann 27-14 og var það munurinn á liðunum.

Einnig er vert að nefna eina troðsluna frá Zarko Jokic.

Dómarar

Sigmundur Már Herbertsson, Birgir Örn Hjörvarsson og Sófus Máni Bender voru tríoið í dag og leystu þeir þetta fantavel.

Fór lítið fyrir þeim og negldu eiginlega allar ákvarðanir.

Stemming

Stemmingin í Skógarselinu er alltaf góð. Það var fámennt en mjög góðmennt í stúkunni.

Besta er að þeir sem voru að sjá um umgjörðina á leiknum að raða stólum, borðum og græja allt sem þarf að græja voru síðan mættir í stúkuna að leiða sönginn hjá Ghetto Hoolingans. Það kætti.

Stjörnur og skúrkar

Stærsta stjarnan í þessum leik var hin frábæri Jacob Falko. Hann endaði leikinn með 30 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. 60% skotnýtingu þar af 50% í þriggja stiga. Var hreint stórkostlegur.

Önnur stjarna er Björgvin Hafþór Ríkharðsson. Hann tók 8 fráköst, var +18 þegar hann var inná og leiddi pressuvörnina eins og hann gerir svo frábærlega.

Skúrkurinn hjá Ármanni var Dibaji Walker en þegar það fór að ganga illa byrjaði hann að vera með kjaft og hálf gafst upp.

Viðtöl

Steinar: Spiluðum ekki illa af því að hann væri á bekknum 

Steinar Kaldal þjálfari Ármenninga var svekktur að hafa ekki landað sigrinum. 

„Við töpum eiginlega leiknum á þrem, fjórum mínútum þegar þeir fara í pressu og við bara felum okkur á móti því. Menn mæta hérna í innkasti eftir körfu þá hlaupa menn bara upp völlinn og þora ekki að sækja boltann. 

Sóknarlega verðum við stífari þrátt fyrir að taka leikhlé og reyna fara yfir hvað við eigum að gera en við bara gerum það ekki. Og þetta er kaflinn sem þeir ná 10 stiga forskoti sem þeir halda síðan út. 

Við skorum 50 stig í fyrri hálfleik en 33 stig í seinni hálfleik og það er þessi kafli sem við skorum ekki neitt sem að gerir það að verkum að þeir ná þessari forystu.“ 

En í þriðja leikhluta þá sat Daniel Love sem fastast á bekknum, hver ætli sé ástæðan fyrir því? 

„Hann byrjaði ekki leikinn og spilaði ekki mikið í fyrri hálfleik. Við spilum mjög vel þar. Góð leikstjórn. Það var ekkert það að hann sat út af sem olli því að við spiluðum illa í 3. leikhluta,” sagði Steinar

Ármannsliðið er búið að bæta sig leik eftir leik og það hlýtur að fara styttast í sigur: 

„Mér fannst við vera nær núna en síðast. Nú var þetta styttri kafli en í síðasta leik. Ég talaði um eftir síðasta leik að við þyrftum að fjölga góðu köflunum og fækka vondu köflunum. Við gerðum það í þessum leik en mjög sárt að þessi sæmi kafli sé svona svakalega slæmur. Ég held við eigum Tindastól næst og vonandi verða færri slæmir kaflar þar til að eiga séns á sigri.“

Borche: Hann er leiðtoginn okkar

Borche Illevski var sáttur að vinna en ekki sáttur með spilamennsku sinna manna. „Við vorum ekki í takt. Sérstaklega í fyrri hálfleik og það hafði áhrif á sjálfstraustið okkar. En þegar við hækkuðum hraðan í leiknum. Sóknarlega og varnarlega þá tókum við völdin.”

En þegar þeir juku hraðann þá tók Jacob Falko í taumana stýrði skútunni í höfn. 

„Eftir góða vörn þá færðu góða vörn og Jake (Jacob Falko) steig upp. Hann er leiðtoginn okkar en ég verð að nefna aðra leikmenn. Hákon og Kristján settu þrista þegar Ármenningar voru að reyna að koma til baka og þessir þristar voru mikilvægir. En við erum ennþá að leita að okkar einkenni. En ég verð einnig að nefna Björgvin. Björgvin kom inn og gaf mér nákvæmlega það sem ég bjóst við frá honum. Frábær orka sem hann kom með inn sem okkur vantaði,“ sagði Borche.

ÍR er mikið baráttulið en vantar kannski skyttur? „Kristján er skyttan okkar en hann er að leita að skotinu sínu. Hann skoraði mikilvægar körfur í kvöld. En hann er ungur og efnilegur leikmaður. Ég sem þjálfari veit að hann á eftir að vera upp og niður en það mun koma leikur sem hann springur út.“

ÍR-ingar mæta Þór frá Þorlákshöfn og þurfa þeir að mæta klárir í hann ef þeir ætla að fá eitthvað út úr honum. „Erfiður leikur. Það er ekkert auðvelt í þessu. Þeir eru að bæta sig leik eftir leik og við þurfum að mæta vel undirbúnir ef við ætlum að ná í sigur þar,“ sagði Borche að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira