Viðskipti innlent

„Óveðurský á lofti í ferða­þjónustu“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Flugfélagið Icelandair hefur ráðist í hagræðingu.
Flugfélagið Icelandair hefur ráðist í hagræðingu. vísir/vilhelm

Forstjóri Icelandair segir stjórnvöld þurfa að gera það sem sé þveröfugt miðað við áform þeirra vilji þau stuðla að rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu. Fyrirtækið réðst í hópuppsögn í morgun í ljósi versnandi afkomu.

Icelandair gekk í morgun frá starfslokum við 38 starfsmenn. Samkvæmt flugfélaginu er þetta gert í hagræðingarskyni til að snúa við rekstri fyrirtækisins. Flestir sem misstu vinnuna voru starfsfólk á skrifstofu félagsins í Hafnarfirði.

Félagið hefur þegar birt afkomuviðvörun þar sem kom fram að kostnaður á fjórðungnum hefði verið meiri en búist var við. Icelandair áætlar að afkoma fyrir vaxtagreiðslur og skatta árið 2025 verði neikvæð um 1,2 til 2,4 milljarða króna.

Forstjóri Icelandair segir aðstæður í flugrekstri verulega krefjandi.

„Hvað þau geta gert til að styrkja samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. Það þarf að lækka skatta og gjöld í stað þess að tala um að það séu fyrirhugaðar skattahækkanir og þegar komnar skattahækkanir á greinina. Stjórnvöld verða að gera þveröfugt við það sem þau er að tala um að gera.“ 

Eingöngu er um skrifstofustörf að ræða en Bogi svaraði ekki hvaða verkefnum starfsfólkið sinnti.

„Sérstaklega erfiður dagur hér hjá Icelandair og ekki síst hjá þeim sem eru að hverfa á braut hjá okkur. Frábærir starfsmenn sem hafa unnið hér mjög lengi.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.Vísir/Vilhelm

Töluverðar vendingar hafa orðið í ferðaþjónustu hér á landi undanfarið. Flugfélagið Play sem var helsti samkeppnisaðili Icelandair lagði upp laupana í september og þá hætti ferðaskrifstofan Tango travel starfsemi um helgina.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir blikur á lofti í ferðamannageiranum.

„Það virðist vera að dragast ansi hratt saman núna og kólna hratt. Afleiðingarnar eru að koma í ljós þessa dagana. Það má ekki gleyma því að það er alltaf árstíðarbundin niðursveifla á þessum tíma en hún virðist vera ýktari núna. Það eru uppsagnir á hótelum, ræstingarfyrirtækjum, veitingageiranum. Þetta sýnir sig þar og síðan náttúrulega ferðaskrifstofur og fleiri sem hafa verið að loka.“

Unnur Sverrisdóttir er forstjóri Vinnumálastofunar.Vísir/Einar

Er einhver fleiri svið þar sem við sjáum þessi teikn á lofti?

„Byggingariðnaðurinn sem dregst líka alltaf saman yfir vetrarmánuðina frá nóvember fram í mars. Hann virðist líka vera að dragast hraðar saman núna. Þetta er einhvern veginn svolítið snögg kulnun.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ferðaþjónustuna hér á landi eiga allt sitt undir því að rekstur Icelandair gangi vel.

„Það var talað um að margra ára ósjálfbær rekstur gangi ekki og þau séu með plan til að snúa rekstrinum við. Þetta virðist vera liður í þeim aðgerðum. Þetta er gríðarlega mikilvægt félag fyrir okkur öll.“

Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.Sigurjón Ólason

Jóhannes er ekki bjartsýnn fyrir vetrinum og komandi ári.

„Við höfum bent á að það séu ýmis óveðurský á lofti í ferðaþjónustu. Alþjóðakerfið er allt upp í loft. Viðskiptakerfið, tollamál. Við erum að sjá efnahagslegar afleiðingar á okkar sterkustu mörkuðum eins og í Bandaríkjunum. Það er líklegra til að hafa meiri áhrif á neysluhegðun fólks þar, og þar á meðal ferðavilja og ferðahegðun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×