Innlent

Kólnun á fast­eigna­markaði: Færri skoða og lægra verð

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Vísbendingar eru um að fyrstu kaupendum sé að fækka.
Vísbendingar eru um að fyrstu kaupendum sé að fækka. Vísir/Vilhelm

Fasteignasalar telja virkni fasteignamarkaðsins litla miðað við árstíma. Fáir mæta í opin hús og er það talið algengt að verð sé lækkað í söluferli. Þá eru vísbendingar um að fyrstu kaupendum sé að fækka.

Í nýrri könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem meðlimir Félags fasteignasala tóku þátt í kemur fram að dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða hafi þegar haft áhrif á hegðun almennings þegar kemur að fasteignum. 

Áframhaldandi kólnun sé á markaðnum en fasteignamarkaður er almennt talinn kaldur ef lítið sé um að vera og mögulegir kaupendur eru hlutfallslega fáir í samanburði við seljendur. Niðurstöðurnar gefa til kynna að fasteignasalar telji markaðinn í dag vera kaupendamarkað.

Þá töldu langflestir að virkni markaðsins væri lítil miðað við árstíma. Fyrr á árinu var miðað við að í fyrstu vikunni sem íbúð væri að sölu væru á milli fjórir og átta sem skoðuðu fasteignina. Nú eru einungis þrír eða færri sem skoða fasteign fyrstu vikuna.

Íbúðum á sölu hefur samt sem áður fjölgað, bæði þegar litið er til nýrra íbúða eða annarra. Nú eru rúmlega fimm þúsund íbúðir til sölu og hefur þeim fjölgað um þúsund frá því í apríl.

Talið er að úrskurður Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða hafi áhrif á fasteignamarkaðinn. Í kjölfar úrskurðarins hafa stærstu viðskiptabankarnir breytt skilmálum sínum um hver fær verðtryggð lán. Í tilkynningu HMS segir að 86 íbúðir hafi verið settar á sölu frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp um miðjan október.

Að auki eru teikn á lofti um að fyrstu kaupendum fækki. Í könnunni kom fram að mun færri fasteignasalar miðluðu fasteignum til fyrstu kaupenda í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×