Sport

Dæmd fyrir að stela af liðsfélaga í lands­liðinu en nær Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julia Simon fagnar hér sigri á heimsbikarmóti.
Julia Simon fagnar hér sigri á heimsbikarmóti. Getty/Christian Manzoni/

Skíðaskotfimistjarnan Julia Simon hefur verið dæmd í sex mánaða bann af aganefnd franska skíðasambandsins, FFS, en bannið er það stutt að hún getur keppt á Ólympíuleikunum á næsta ári.

Lykilatriði í því er að fimm af þessum sex mánuðum eru skilorðsbundnir.

Simon var nýlega dæmd fyrir greiðslukortasvik og þjófnað. Hún sleppur með að afplána eins mánaðar bann og missir bara af upphafi heimsbikarsins, en mun geta tekið þátt í Ólympíuleikunum í Mílanó og Cortina d'Ampezzo á Ítalíu.

Simon vann heimsbikartitilinn í samanlögðu árið 2023 og á tíu gullverðlaun frá heimsmeistaramótum. Hún var einnig sektuð um þrjátíu þúsund evrur (4,4 milljónir króna) af aganefnd FFS.

Fyrir tveimur vikum var Simon dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu fimmtán þúsund evra sektar (um 2,2 milljónir íslenskra króna) fyrir þjófnað og svik gegn meðal annars liðsfélaga sínum, Justine Braisaz-Bouchet.

Hún var dæmd fyrir að hafa ítrekað notað bankakort liðsfélaga síns í franska landsliðinu, Justine Braisaz-Bouchet, og annars starfsmanns franska liðsins til að kaupa vörur á netinu fyrir meira en tvö þúsund evrur.

Dómurinn í dómstóli í Albertville féll stuttu eftir að Simon, mörgum að óvörum, lagði öll spil á borðið í réttarsalnum og játaði sakir samkvæmt ákæru.

„Ég get ekki útskýrt það. Ég man ekki eftir að hafa gert þetta. Ég skil þetta ekki,“ sagði hin 29 ára gamla íþróttakona við yfirheyrslur í Albertville, eins og haft er eftir henni í héraðsblaðinu Le Dauphiné Libéré. Simon játaði þjófnaðinn við yfirheyrslurnar og bað fórnarlömbin afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×