Handbolti

„Tæki­færi fyrir aðra að stíga upp og sýna sig“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Pétursson hefur úr öðrum leikmönnum að moða á HM en á síðustu stórmótum.
Arnar Pétursson hefur úr öðrum leikmönnum að moða á HM en á síðustu stórmótum. vísir / ívar

Þrátt fyrir að hafa mun reynsluminni hóp en á síðustu stórmótum vill landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson sjá Ísland stíga framfaraskref og komast áfram í milliriðill í fyrsta sinn.

Landsliðshópurinn sem var tilkynntur í gær er töluvert frábrugðinn hópnum sem fór á síðasta stórmót, EM 2024. Margir reynsluboltar eru horfnir á braut og fjórir af þeim sextán leikmönnum sem voru valdir eru á leiðinni á sitt fyrsta stórmót.

„Þetta er auðvitað mikil reynsla sem er að hverfa þarna, einhverjir sjö hundruð landsleikir samanlagt, leikmenn sem hafa verið lengi í þessu með okkur og verið máttarstólpar, en það er þá bara tækifæri fyrir aðra að stíga upp og sýna sig.“ 

„Þetta mun auðvitað taka einhvern smá tíma og við verðum að gefa okkur hann“ sagði Arnar.

Skammur tími er þó til stefnu fram að heimsmeistaramótinu, sem hefst undir lok þessa mánaðar. Þar verður Ísland í riðli með heimaþjóðinni Þýskalandi, stórliði Serbíu og svo Úrúgvæ en efstu þrjú liðin komast áfram.

„Okkur langar upp í milliriðilinn og taka þá enn eitt skrefið, eitthvað sem okkur hefur ekki tekist áður. Við unnum fyrsta leikinn á stórmóti á EM í fyrra og nú langar okkur upp í milliriðilinn, það er markmiðið.“

Hópurinn kemur saman hér á landi mánudaginn 16. nóvember og HM hefst svo þann 27. nóvember en þess á milli er förinni heitið til Færeyja.

„Við komum saman á mánudegi og æfum þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag hérna heima. Förum svo til Færeyja á föstudagsmorgni, spilum þar æfingaleik á laugardeginum við færeyska liðið, sem við þekkjum orðið mjög vel. Svo er markmiðið á sunnudeginum að taka sameiginlega æfingu með Færeyjum“ sagði Arnar í viðtalinu sem má sjá í spilaranum efst í fréttinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×