Erlent

Út­bjuggu heima­gerðar sprengjur fyrir á­rásir á hús­næði flótta­manna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Talið er að mennirnir hafi verið að útbúa sprengjur.
Talið er að mennirnir hafi verið að útbúa sprengjur. Getty

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir að skipuleggja hryðjuverk fyrir hönd hryðjuverkasamtaka sem aðhyllast hægri öfgahyggju en talsvert magn sprengiefni fannst á heimili eins þeirra.

Karolis Peckauskas frá Drogheda á Írlandi og Garrett Pollock frá Annalong á Norður-Írlandi voru handteknir hvor sín megin við landamærin eftir umfangsmikla samstarfsrannsókn lögreglunnar á Írlandi og lögreglunnar á Norður-Írlandi.

Samkvæmt umfjöllun Guardian hafði lögreglan undir höndum myndskeið þar sem mennirnir tveir lýstu yfir ábyrgð á árás á mosku í Galway á vesturströnd Írlands og hótuðu frekari árásum á húsakynni flóttafólks á Írlandi.

Í myndbandinu stóðu mennirnir tveir fyrir framan írskan fána með lambhúshettur fyrir andliti. Þar fluttu þeir það sem lýst er sem æfingaryfirlýsingu fyrir yfirvofandi hryðjuverk. Þeir vöruðu við því að allir þeir sem reyndu að standa í vegi þeirra yrðu skotmörk. Þá höfðu þeir einnig eins konar stefnuyfirlýsingu í fórum sínum.

Sprengiefnið sem fannst á heimili Pollock er talið hafa átt að nota til að setja saman heimatilbúnar sprengjur. Ásamt efninu fundust einnig aðrir íhlutir slíkra sprengja. Samkvæmt írsku lögreglunni stóð til að fremja hryðjuverk fyrir hönd öfgahægri hryðjuverkasamtaka sem hafa þó hvergi verið nefnd á nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×