Veður

„Hvorki dropi né snjó­korn úr lofti eins langt og séð verður“

Rafn Ágúst Ragnarsson og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir hæglætisveður framundan.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir hæglætisveður framundan. SÝN

Landsmenn hafa víðast hvar notið hlýinda í veðri undanfarna daga; reyndar svo mjög að mörgum þykir það óvenjulegt í nóvembermánuði. Veðurfræðingur segir vetrarkulda á næsta leiti en að þó sé útlit fyrir fallegt hæglætisveður næstu vikurnar.

Hlýindin sem hafa einkennt undanfarnar vikur, að fannferginu í október undanskildu, kveðja nú landsmenn í bili og veturinn hefur innreið sína. Það þýðir þó ekki að landinn megi eiga von á byljum eða kafaldi, þvert á móti er langur þurrkakafli í kortunum.

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir hitatölurnar síga ansi skarplega um miðbik næstu viku og að það frysti að öllum líkindum á þriðjudaginn. Hitinn ruggi upp og niður um frostmark þar á eftir svo langt sem séð verði. Kafald sé þó ekki í vændum heldur öfgarnar í hina áttina.

„Það eru horfur á því að á Suðvesturlandi komi hugsanlega hvorki dropi né snjókorn úr lofti eins langt og séð verður sem er ein til tvær vikur. Það gæti orðið mjög langur þurrkakafli núna. Það verður líklega mjög bjart í vikunni og fallegt veður. Svolítið kalt um miðbik vikunnar en svo eftir það verður líklega hæglætisveður. Það er stór og mikil hæð sem kemur og þær fara hægt yfir þannig að þetta gæti enst dálítið lengi. Vel að merkja verður éljagangur á Norður- og Austurlandi, ekki mikið en dálítið fjúk,“ segir Haraldur Ólafsson.

Engar viðvaranir í kortunum?

„Ég held að litakassinn sem þeir nota fari ofan í skúffu núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×