Körfubolti

Kári og Kristó eru skemmti­legasta kombóið í þessari deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson bíður hér eftir að Kristófer Acox komi og setji hindrun fyrir sig og þá lenda varnarmenn mótherjans oft í vandræðum.
Kári Jónsson bíður hér eftir að Kristófer Acox komi og setji hindrun fyrir sig og þá lenda varnarmenn mótherjans oft í vandræðum. Vísir/Guðmundur Þórlaugarson

Kári Jónsson og Kristófer Acox voru aðalmennirnir á bak við sigur Valsmanna á Akranesi í sjöttu umferð Bónus deildar karla í körfubolta og þeir fengu líka báðir mikið hrós í Körfuboltakvöldi.

Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Bónus Körfuboltakvölds, hóf umræðuna um Kára en fljótlega barst talið einnig að Kristófer, enda samvinna þeirra tveggja engu öðru líkt í deildinni.

Það sem hann er algjör snillingur í

„Kári Jónsson. Hann er góður í þessari íþrótt sem við elskum, Benni. Það verður að segjast alveg eins og er,“ sagði Stefán Árni.

Klippa: Körfuboltakvöld: Umræða um Kára Jóns og samvinnu hans við Kristófer

„Hann var bara algjörlega frábær í þessum leik og endaði með 27 stig. Það eru ekki bara stigin heldur á hvaða tímapunktum hann er að skora. Það er bara þegar virkilega vantar körfu, ÍA kannski á áhlaupi, og Valur þarf svar. Þá kemur hann með eitthvað. Þetta er það sem hann er algjör snillingur í,“ sagði Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Manni finnst stundum að hann bara viti hvenær hann á að skora og hvenær ekki,“ sagði Benedikt.

Hittir betur í fjórða

„Ár eftir ár höfum við séð Kára taka þessi skot í fjórða leikhluta. Einhvern veginn virðist hann hitta betur í fjórða leikhluta og þegar það er mikið undir,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Þá stígur hann upp og er óhræddur við að taka þessi stóru skot. Hann hefur sannað fyrir okkur, bara leik eftir leik, ár eftir ár, að hann er maðurinn sem á að taka þessi stóru skot. Og við vitum það líka, í leikhléinu hinum megin hjá þjálfaranum hinum megin, þá var hann að leggja áherslu á að passa Kára. Af því það vita allir en enginn er að stoppa þetta einhvern veginn,“ sagði Teitur.

Kristó er svo ofboðslega sterkur

„Var þetta besti leikurinn hjá Kristófer,“ spurði Stefán.

„Þegar við sáum klippuna núna af Kára þá var þetta meira og minna allt saman eftir einhver skrín frá Kristó. Kristó er svo ofboðslega sterkur,“ sagði Teitur.

„Þeir eru náttúrulega bara skemmtilegasta kombóið, Kári og Kristó, í þessari deild. Það er bara unun að horfa á þetta,“ sagði Benedikt.

Það má horfa á alla umræðuna um þessa frábæru leikmenn Valsliðsins hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×