Sport

„Allir í kringum í­þróttir ættu að hafa á­hyggjur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Einhverjir keppendur í þríþraut á Ólympíuleikunum í París notuðu þyngdarstjórnunarlyf, sem eru lögleg eins og er.
Einhverjir keppendur í þríþraut á Ólympíuleikunum í París notuðu þyngdarstjórnunarlyf, sem eru lögleg eins og er.

Notkun þyngdarstjórnunarlyfja, á borð við Ozempic, hefur aukist verulega undanfarin ár og þrátt fyrir að vera yfirleitt í toppformi er íþróttafólk alls ekki undanskilið. Yfirmaður hjá alþjóða lyfjaeftirlitinu vill banna slík lyf algjörlega en það mun taka að minnsta kosti tvö ár.

Á Ólympíuleikunum í París í fyrra fundust fyrst dæmi um íþróttafólk sem notaði þyngdarstjórnunarlyf. Lyfin eru ekki á bannlista og íþróttafólkið játaði notkunina, þeirra á meðal voru keppninautar Guðlaugar Eddu Hannesdóttur í þríþrautinni.

Virka efnið í þyngdarstjórnunarlyfjum, semaglutide, er nú til rannsóknar hjá alþjóða lyfjaeftirlitinu (WADA), sem athugar hvort efnið hafi áhrif á frammistöðu íþróttafólks.

Lars Engebretsen, læknirinn sem leiðir rannsóknarnefndina hjá WADA, þarfnast þó ekki frekari sannfæringar.

„Ég vil banna þetta algjörlega. Þetta er ekki gott fyrir íþróttir og getur haft mjög neikvæð áhrif á heilsuna, sérstaklega fólk sem glímir nú þegar við átraskanir“ sagði Engebretsen við norska ríkisútvarpið sem fjallaði um málið.

Það er þó ekki algjörlega undir honum komið hvort lyfin verði bönnuð en hann fer fyrir einni af þremur rannsóknarnefndum, sem munu rannsaka semaglutide í tvö ár til viðbótar að minnsta kosti.

The Sunday Times fullyrðir, eftir samtöl við fleiri lyfjastofnanir, að borið hafi á notkun lyfjanna í íþróttum þar sem íþróttafólk verður að halda sér innan ákveðinna þyngdarmarka.

Til dæmis í bardagaíþróttum, sem setja ströng þyngdarskilyrði, en einnig í íþróttum þar sem þyngd getur haft áhrif á mat dómara við fagurfræðileg atriði, eins og listskautum eða fimleikum.

Formaður norska fimleikasambandsins ræddi einnig við ríkisútvarpið og lýsti yfir miklum áhyggjum, sem læknirinn tók undir. 

„Allir í kringum íþróttir ættu að hafa áhyggjur“ sagði Engebretsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×